Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd í formennskutíð Svíþjóðar

08.01.24 | Fréttir
Sverige ordförandeskap Nordiska ministerrådet 2024
Photographer
Tina Axelsson/imagebank.sweden.se
Um áramótin tók Svíþjóð við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, sem er opinber samstarfsstofnun norrænu ríkisstjórnanna. Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd er meginstefið í formennskuáætluninni þar sem sérstök áhersla er lögð á aukinn hreyfanleika yfir landamæri og samþættingu.

Á óvissutímum í alþjóðastjórnmálum taka Svíar við formennsku í ráðherranefndinni fullvissir þess að náið samstarf norrænu landanna skipti sköpum þegar kemur að sameiginlegu öryggi og velferð á svæðinu.

„Einkunnarorð okkar eru öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd. Öruggari með því að efla sameiginlega getu okkar til þess að koma í veg fyrir, vinna gegn og takast á við hinar ýmsu krísur samtímans. Grænni með því að vera brautryðjendur í samkeppnishæfum og nýsköpunardrifnum grænum umskiptum, bæði heima fyrir og með því að kynna hreinar norrænar lausnir um allan heim. Frjálsari með því að vinna að auknum hagvexti, samkeppnishæfu atvinnulífi og meiri samþættingu á Norðurlöndum sem gagnast einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Norðurlönd leiðandi í grænum umskiptum

Í formennskuáætluninni er unnið út frá framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og mest samþætta svæði heims árið 2030. Svíþjóð mun á árinu halda áfram vinnunni við að Norðurlönd verði leiðandi í hinum grænu umskiptum auk þess að vinna að alþjóðlega samkeppnishæfu og félagslega sjálfbæru svæði.

„Framtíðarsýnin um að Norðurlönd verði orðin sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 er enn leiðarstefið. En svo allrar hreinskilni sé gætt þá eigum við nokkuð langt í land. Það ríður á að setja aukinn kraft vinnuna,“ sagði Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, þegar hann kynnti formennskuáætlunina á þingi Norðurlandaráðs í Stórþinginu í Ósló þann 31. október í fyrra.

Einfalt að búa, stunda vinnu og nám á Norðurlöndum

Í formennskutíð Svíþjóðar verður sérstök áhersla lögð á samþættingu Norðurlanda og aukinn hreyfanleika yfir landamæri.
„Það þarf að vera einfalt að búa, stunda nám og vinnu og reka fyrirtæki á öllum Norðurlöndum og þvert á landamæri. Nú þurfum við að láta verkin tala og setja meiri kraft í vinnuna við að afnema stjórnsýsluhindranir og ýta undir hreyfanleika og samþættingu. Það verður forgangsmál í formennskutíð Svíþjóðar,“ segir Jessika Roswall, ESB-ráðherra með ábyrgð á málefnum Norðurlanda.

Fjögur áherslusvið

Í formennskutíð sinni mun Svíþjóð standa fyrir röð ráðherrafunda, ráðstefna og annarra viðburða, bæði rafrænum og hefðbundnum. Eftirfarandi áherslusvið munu ramma fundaröðina inn:

  • Samþætt Norðurlönd án stjórnsýsluhindrana
  • Græn Norðurlönd
  • Samkeppnishæf Norðurlönd
  • Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Nánari upplýsingar