Varðveitum fagkunnáttu landamæranefndanna
„Landamæranefndirnar tólf, frá Eyrarsundi í suðri til Haparanda/Torneå í norðri, eru mjög mikilvægar fyrir vinnuna við að uppfylla framtíðarsýnina um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Samstarf á landamærasvæðunum er mikilvægt fyrir Norðurlönd í heild sinni,“ segir Per-Arne Håkansson, talsmaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.
Í tengslum við vinnuna að nýrri samstarfsáætlun fyrir tímabilið 2025–2030 fól svið byggðastefnu innan Norrænu ráðherranefndarinnar utanaðkomandi ráðgjafastofu að gera úttekt á samstarfi á landamærasvæðum á Norðurlöndum og leggja fram tillögur að nýju fyrirkomulagi samstarfsins.
Norðurlandaráð er ekki sammála niðurstöðum skýrslunnar. Einkum er ráðið andsnúið tillögunni sem lýtur að því að á áætlunartímabilinu verði starfsemi núverandi landamæranefndum boðin ú í opnu útboðsferli. Það myndi hafa í för með sér að landamæranefndir sem búa yfir mikilli reynslu af samstarfi þvert á landamæri eigi á hættu að fá minni forgang í stað skammtímamarkmiða og lausna sem ekki hafa tengingu við byggðaþróun.
Landamæranefndir eru innviðir sem lýðræðislega kjörnir aðilar hafa falið að vinna að því að samþætta Norðurlöndin.
„Í stað þess að uppfæra landamæranefndirnar leggur Norræna ráðherranefndin til að starfsemi þeirra verði boðin út. Við gerum athugasemdir við það því þetta snýst ekki um fyrirtæki og atvinnulífið heldur samfélagslegan ávinning til lengri tíma og samstarf við kjörna fulltrúa á landamærasvæðunum. Við viljum að tekið verði tillit til þess sem landamæranefndirnar tólf höfðu til málanna að leggja í tengslum við samstarfið og fjármögnunarlíkan sem er í mótun,“ segir Håkansson að lokum.