Starfshópur á vegum Norðurlandaráðs: Fjalla ber um öryggismál í Helsingforssamningnum

09.04.24 | Fréttir
Photographer
Gwenaël Akira Helmsdal Carré
Að mati starfshóps á vegum Norðurlandaráðs ber að fjalla um öryggis-, varnar- og viðbúnaðarmál í Helsingforssamningnum. Það var forsætisnefnd Norðurlandaráðs sem skipaði starfshópinn til þess að kanna þörfina á því að uppfæra samninginn sem er frá árinu 1962 og opinbert norrænt samstarf grundvallast á. Síðustu breytingar á Helsingforssamningnum voru gerðar árið 1995.

Starfshópurinn kynnti tillögur sínar með skýrslu á þemaþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í Færeyjum þann 9. apríl þar sem meginþemað var öryggi, friður og viðbúnaður í Norður-Atlantshafi. Hópurinn hefur unnið að því síðan í fyrrasumar að kortleggja þörfina á breytingum á Helsingforssamningnum. Í ljósi nýrrar stöðu í öryggismálum á Norðurlöndum og í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 og inngöngu Finna og Svía í NATO telur hópurinn mikilvægt að samningurinn endurspegli þær nýju áskoranir og tækifæri sem Norðurlönd standa frammi fyrir.

Það má segja að á mörgum mikilvægum sviðum hafi norrænt samstarf ekki þróast með sama hætti og annað alþjóðlegt samstarf á síðustu áratugum. Ef við förum ekki yfir Helsingforssamninginn og betrumbætum hann er hætta á að norrænt samstarf tapi gildi sínu að einhverju leyti í nánustu framtíð.

Hanna Katrín Friðriksson, formaður starfshópsins

Loftslagsmál og stjórnsýsluhindranir

Auk þess að leggja til að fjallað verði um öryggis-, varnar- og viðbúnaðarmál í samningnum er hópurinn með ýmsar tillögur að því hvernig uppfæra megi samninginn þannig að hann endurspegli betur nútímann. Til að mynda er loftslagsmála hvergi getið í samningnum þótt þau séu mikilvægur hluti af norrænu samstarfi í dag. Þá telur hópurinn einnig að fjalla ætti um stjórnsýsluhindranir.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs mun fjalla um tillögur starfshópsins í júní og taka ákvörðun um hvort beina skuli tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna um að uppfæra Helsingforssamninginn.

Fjörugar umræður um stöðu Álandseyja, Færeyja og Grænlands

Þegar skýrslan var kynnt á þemaþinginu snerust umræður að mestu leyti um vilja Álandseyja, Færeyja og Grænlands til þess að gerast fullgildir aðilar að Helsingforssamningnum. Málið verður rætt nánar á komandi fundum.

Greinin var uppfærð og síðustu efnisgreininni bætt við kl. 15.40 þann 9. apríl að loknum umræðum í þingsal.