Borgir taka höndum saman gegn útbreiðslu öfgastefnu

29.03.16 | Fréttir
De nordiska samarbetsministrarna i Noux
Photographer
Mary Gestrin/Norden.org
Nordic Safe Cities fundar í fyrsta sinn í Malmö í Svíþjóð 29.-30. mars næstkomandi. Þetta samstarfsnet borga var myndað að frumkvæði samstarfsráðherra Norðurlanda og markmið þess er að koma í veg fyrir útbreiðslu öfgastefnu í borgum okkar með því að stuðla að öryggi í staðbundnum samfélögum.

Á síðustu árum hefur það gerst í nokkrum norrænu landanna að ofbeldisverk hafa verið unnin af einstaklingum sem á mismunandi hátt hafa lent utan þess samfélags sem við búum í. Borgirnar okkar verða sífellt stærri og fjölmenningarlegri og þar með eykst hættan á firringu.

Andstæða firringar er samfélag. Á grundvelli framtaks ríkisstjórna Norðurlanda verður nú myndað samstarfsnet norrænna borga sem munu taka höndum saman gegn útbreiðslu öfgastefnu. Borgirnar í Nordic Safe Cities munu í sameiningu móta lausnir sem stuðla að öryggi, trausti og umburðarlyndi.

„Við erum ánægð með það að Norræna ráðherranefndin hafi kosið að halda fyrsta fund Nordic Safe Cities í Malmö. Borgin okkar vinnur með borgaralegu samfélagi gegn útbreiðslu öfgastefnu. Við teljum að samstarfsnetið geti lagt verulega af mörkum til þess starfs sem við erum að vinna sem miðar að því að gott og öruggt verði að búa í borginni, og við erum ánægð með að fá tækifæri til að ræða við aðrar borgir á Norðurlöndum,“ segir Andreas Schönstræm, varaborgarstjóri í Malmö, en hann fer með málefni sem snerta öryggi og traust í borginni.

Miðlun reynslu skapar lausnir

Samstarfsráðherrarnir Kristina Persson (Svíþjóð) og Eygló Harðardóttir ætla að hitta borgarstjóra, sveitastjórnarmenn og embættismenn sem koma saman til fundar í Malmö 29.-30. mars til að skiptast á reynslu og til að þróa lausnir í sameiningu.

Borgirnar sem taka þátt í Nordic Safe Cities verða hluti af áætlun í umsjón Norrænu ráðherranefndarinnar. Hugmyndin er að borgirnar noti samstarfsnetið til að móta aðgerðir á ákveðnum sviðum, vinna að sameiginlegum viðfangsefnum og sækja sér þekkingu og hugmyndir frá vísindamönnum, sérfræðingum, borgaralegu samfélagi og frá starfssystkinum sínum á Norðurlöndum.

„Reynslan af hópum öfga- og ofbeldismanna eru mismunandi eftir borgum. Borgirnar hafa á hinn bóginn allar duglega starfsmenn, eldhuga sem vinna sjálfboðastarf og íbúa sem búa yfir verðmætri þekkingu og reynslu sem hægt er að nýta til að þróa góð úrræði,“ segir Anne Berner, formaður Norrænu ráðherranefndarinnar og samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi.

Á ráðstefnunni verður gerð tillaga að stofnskrá, það er að segja sameiginleg framtíðarsýn fyrir Nordic Safe Cities, sem síðan þarf að útfæra í framkvæmdaáætlunum borganna um baráttuna gegn útbreiðslu öfgastefnu. 

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna: