Bertel Haarder: Tímabært að endurnýja „grundvallarsáttmála“ Norðurlandaráðs

03.11.22 | Fréttir
Bertel Haarder på Nordiska rådets session i Helsingfors 2022.
Photographer
Johannes Jansson
Nauðsynlegt er að enduskoða Helsingforssamninginn, „grundvallarsáttmála“ Norðurlandaráðs. Þetta er mat Bertels Haarder sem setið hefur í ráðinu í áraraðir. Meðal þess sem vantar í núgildandi samning er utanríkis- og öryggisstefna en þau málefni eru nú meðal þeirra mikilvægustu í Norðurlandaráði.

„Það er eiginlega þversagnarkennt að í vinnu Norðurlandaráðs, eins og hún er skipulögð nú, skuli ekki vera gert ráð fyrir því að utanríkis- og varnarstefna er orðin þungamiðja samstarfsins. Nauðsynlegt er að gera stefnumótunarstarf um þessi málefni formfastara og það eru enn ein rökin fyrir því að endurskoða þurfi Helsingforssamninginn,“ segir Bertel Haarder, sem hefur meðal annars verið forseti Norðurlandaráðs tvisvar.

Bertil Haarder lét þessa skoðun í ljós í umræðum með norrænu varnarmálaráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors. Bertil Haarder flutti framsögu forsætisnefndar og nefndi að Helsingforssamningnum hefði verið breytt átta sinnum.

„Ef við þurfum ekki að breyta honum í ljósi þess sem hefur átt sér stað varðandi utanríkis- og varnarstefnu þá veit ég ekki hvenær við ættum að gera það. Þetta er sögulegt þing. Þetta er sögulegt ár. Nú verðum við að nýta aflið sem við finnum svo greinilega fyrir á þessu Norðurlandaráðsþingi í Helsingfors,“ sagði Bertel Haarder

Hugmyndinni um endurskoðun Helsingforssamningsins hefur víðar verið varpað fram. Málið var meðal annars rætt á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs og norrænu samstarfsráðherranna á þinginu í Helsingfors.

Varaformaðurinn vill ræða endurskoðun

Helge Orten, sem var kjörinn varaforseti Norðurlandaráðs á þinginu, varpaði í framsögu sinni fram þeirri hugmynd að endurskoða þyrfti samninginn.

Orten vísaði til stefnu Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi frá 2019 þar sem ráðið hvetur norrænu ríkisstjórnirnar til þess meta hvernig best megi virkja Norrænu ráðherranefndina í samstarf um norræna utanríkis- og öryggisstefnu og styðja samstarfið.

„Við erum mörg í Norðurlandaráði sem erum farin að ræða hvort þörf sé á endurskoðun Helsingforssamningsins til að aðlaga hann að nýjum veruleika á sviði utanríkis- og öryggisstefnu,“ sagði Helge Orten.

Utanríkis- og öryggisstefna var gegnumgangandi málefni á þinginu í ár vegna árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu. Rætt var um öryggismál á leiðtogafundi Norðurlandaráðs og forsætisráðherrranna og málið var einnig í brennidepli í umræðum með utanríkisráðherrum og varnarmálaráðherrum.

Öryggismál var sömuleiðis efni fyrirlestrar Sauli Niinistö, sem var gestafyrirlesari á þinginu í ár.

Áður lágu utanríkis-, varnar og öryggismál í þagnargildi í Norðurlandaráði. Síðustu ár hafa þessi málefni orðið meðal þeirra mikilvægustu.

Helsingforssamningurinn var undirritaður í Helsingfors 23. mars 1962 og er því 60 ára á þessu ári. Samningurinn skilgreinir ramma norræns samstarf innan Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar.