Norðurlandaráð ræddi endurskoðun á „grundvallarsáttmála“ Norðurlanda

23.01.23 | Fréttir
Helsingfors
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ræddi hugsanlegar breytingar á „grundvallarsáttmála“ norræns samstarfs, Helsingforssamningnum, á fundi sínum í Stokkhólmi.

Endurskoðun á Helsingforssamningnum hefur verið rædd nokkrum sinnum á fundum ráðsins, síðast á Norðurlandaráðsþinginu í Helsingfors í fyrra þegar danski þingmaðurinn Bertel Haarder vakti máls á henni. Á fundi sínum í Stokkhólmi 24. janúar fjallaði forsætisnefnd Norðurlandaráðs um tillögu um að skipa nefnd til að kanna hugsanlega þörf á að uppfæra samninginn. Forsætisnefndin ákvað að fara að svo stöddu ekki lengra með málið fyrr en kannað hefði verið betur hver gætu verið bein markmið með breytingum. Nú mun starfshópur vinna að nákvæmari tillögum sem hægt verður að fjalla um á fundi forsætisnefndarinnar í Reykjavík í mars.

 

Helsingforssamningurinn frá árinu 1962 er grundvöllur samstarfs norrænu þjóðþinganna. Samningurinn hefur verið endurskoðaður átta sinnum, síðast árið 1995. Þær raddir eru orðnar háværari að endurnýja beri samninginn svo hann eigi betur við um breytta heimsmynd, einkum með tilliti til umhverfis- og loftslagsmála og varnar- og öryggismála.

 

Á fund Norðurlandaráðs í Stokkhólmi kom meðal annars Johan Strang, prófessor í Norðurlandafræðum við háskólann í Helsingfors, sem hélt erindi um Helsingforssamninginn.

„Þegar norrænt samstarf hófst gerði stórveldapólitíkin og valdajafnvægi kalda stríðsins það að verkum að samstarf á sviði varnar- og öryggismála var ekki mögulegt. Nú eru engar slíkar hindranir í veginum,“ segir Strang.

Heléne Björklund, sænskur þingmaður jafnaðarmanna í Norðurlandaráðið segir að ákvörðun forsætisnefndar um að bíða með tilmæli til ríkisstjórnanna helgast af því að menn vilji vera vel undirbúnir.

„Við þurfum aðeins meira kjöt á beinin áður en við komum fram með tillögu um næstu skref. Á endanum eru það norrænu ríkisstjórnir sem taka ákvörðun um hugsanlegar breytingar á samningnum og til þess að þau sýni málinu áhuga teljum við að fyrir þurfi að liggja nákvæmari tillögur,“ segir Björklund.