Mikilvægt skref tekið á fundi Kvennanefndar SÞ – en Norðurlönd stefndu hærra

07.04.17 | Fréttir
Nordisk event ved CSW61
Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga að vinna að afnámi kynbundins launamunar og stuðla að því að kynin skipti ólaunuðum heimilisstörfum jafnar á milli sín. Þannig hljómuðu loforð sem gefin voru í ályktun 61. fundar í Kvennanefnd SÞ, CSW61. Norrænum ráðherrum þótti þó skorta skýra tengingu í lokaskjali fundarins milli kyn- og frjósemisheilbrigðis kvenna og efnahagslegs sjálfstæðis þeirra.

Mikið var rætt á fundi Kvennanefndar SÞ sem stóð í tvær viku í mars í New York og lauk honum á því að löndin skuldbundu sig til að greiða fyrir efnahagslegri valdeflingu kvenna.

„Ég fagna því að við erum með skjal í höndunum sem ráðleggur löndunum hvernig þau eigi að efla konur á vinnumarkaði hvað varðar launamun, ólaunuð heimilisstörf, ofbeldi og mismunun. En Norðmenn stefna hærra í jafnréttismálum en lokaskjalið gefur til kynna,“ skrifar Solveig Horne, jafnréttismálaráðherra Noregs, um lokaályktun fundarins.

Jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf

Tekin voru ýmis skref fram á við. Löndin skuldbundu sig meðal annars til að fylgja jafnlaunastefnu með kjarasamningum, vinnumati og launakönnunum.

„Við eru mjög ánægð með að almennur vinnumarkaður gegni stærra hlutverki en áður þegar kemur að jafnrétti á vinnumarkaði, einkum þegar um er að ræða jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf,“ segir Þorsteinn Víglundsson, jafnréttismálaráðherra Íslands.

Löndin eiga að tryggja fulla og jafna þátttöku kvenna í hagkerfinu, rétt þeirra til atvinnu og réttinda þeirra á vinnustaðnum. Í lokaskjalinu er þetta sagt mikilvægir þættir í sjálfbærri þróun.

Vildu kveða fastar að orði

Norðurlöndin og mörg önnur líkt þenkjandi lönd unnu markvisst að því að fá skriflega viðurkenningu á því að kyn- og frjósemisheilbrigði kvenna sé forsenda fyrir valdeflingu þeirra. Þau fengu í gegn að minnst var á umrædd atriði í lokaskjalinu en mörg lönd hefðu viljað kveða mun fastar að orði.  

Í fréttatilkynningu frá Karen Ellemann, jafnréttisráðherra Danmerkur, lætur hún í ljós vonbrigði sín yfir því að orðalag lokaskjalsins sé ekki ákveðnara þegar kemur að samhengi milli efnahagslegs sjálfstæðis kvenna og réttar þeirra á kyn- og frjósemisheilbrigði:

„Lokaskjal 61. fundar Kvennanefndar SÞ sýnir að baráttan fyrir réttindum kvenna hefur ekki aðeins glatað fjárhagslegum stuðningi heldur einnig pólitískum.“

Trump hættir stuðningi

Þar vísar hún til þess að 61. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW61) fór fram í New York eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ákvað að hætta fjárstuðningi við stofnanir sem vinna með kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi kvenna. 

Åsa Regnér, jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar, skrifar að „sumar ályktanirnar endurspegli hvorki sýn ESB né Svíþjóðar á jafnréttismál og réttindi kvenna og stúlkna“.

Hún bætir við að „Svíþjóð verði áfram öflug rödd til stuðnings þessum málum.“

Stúlkur geti lokið námi 

Pirkko Mattila, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands, telur að ályktanir fundarins muni verða til þess að konum fjölgi á vinnumarkaði og því sé stigið skref í rétta átt.

En hún tekur undir það sjónarmið að Kvennanefnd SÞ hafi ekki tekist að taka rétt á kyn- og frjósemisheilbrigði kvenna.

„Umrædd réttindi eru einnig mikilvæg forsenda þess aðkonur og stúlkur geti lokið námi og síðan tekið þátt á vinnumarkaði,“ segir Pirkko Mattila ráðherraen hún var í forsvari finnsku sendinefndarinnar á fundi Kvennanefndar SÞ.

 

Fróðleiksmolar um Kvennanefnd SÞ: 61. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW61): Þema fundarins í ár var „Efnahagsleg valdefling kvenna á breytilegum vinnumarkaði“ (Women’s economic empowerment in the changing world of work). Kvennanefnd SÞ (Commission on the Status of Women, CSW) er helsta milliríkjastofnun heims sem starfar að því að bæta stöðu kvenna og auka jafnrétti um allan heim. 162 aðildarlönd sátu fundinn í ár, þar af sendu 89 ráðherra. Auk þess mættu 3900 fulltrúar frá félagasamtökum.