Norrænt samstarf á norðurslóðum mikilvægara en nokkru sinni fyrr
Samhliða loftslagsbreytingum og stöðu mála í öryggismálum beinast sjónir heimsbyggðarinnar í æ vaxandi mæli að Norðurlöndum. Þörf er á nánara samstarfi yfir landamærin til þess að efla samfélög og íbúa í norðri.
Norðurlönd eru samofin norðurslóðum og samstarfið innan Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurskautsráðsins miðar að sömu markmiðum: sjálfbærri þróun, líffræðilegri fjölbreytni, sjálfbærri hafstjórnun, viðnámsþrótti og viðbúnaði.
Við verðum að skapa viðnámsþolin samfélög sem tekist geta á við ýmsar áskoranir, allt frá krísum og náttúruhamförum til loftslagsbreytinga og árása gegn frelsi almennings og lýðræðinu.
Norðurlönd vilja tryggja að samstarf á norðurslóðum einkennist áfram af umræðum þrátt fyrir erfiða tíma.
„Norræna ráðherranefndin hefur í yfir 50 ár tryggt að fólk hefur náð saman í gegnum hin ýmsu verkefni okkar. Við fjárfestum í samstarfsnetum, þekkingu og samfélagslegum verkefnum. Slíkar fjárfestingar eru forsenda þess að við á Norðurlöndum getum lifað við heilbrigt og sterkt lýðræði. Við megum ekki ganga að því sem gefnu og þess vegna er stuðningur við norrænt samstarf bæði mikill og nauðsynlegur,“ segir Karen Ellemann.
Aukið samstarf í orkumálum
Í heimi þar sem öryggis- og orkumál eru samofnari en nokkru sinni áður eykst jafnframt mikilvægi norræns samstarfs í orkumálum. Norrænar orkurannsóknir eru sú norræna stofnun sem heldur utan um orkusamstarf og -rannsóknir og þar vilja menn styðja við þetta aukna samstarf.
„Norðurslóðir og Norðurlönd öll eru í góðri stöðu til að styrkja orkuöryggi og um leið tryggja aðgengi að orku sem er bæði sjálfbær og efnahagslega réttlát gagnvart íbúum, í takt við framtíðarsýnina um Norðurlönd sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims,“ segir Klaus Skytte, framkvæmdastjóri Norrænna orkurannsókna.
„En þetta er þríþættur vandi þar sem orkuöryggi, orkuverð og sjálfbærni togast á,“ bætir hann við.
Rannsóknarverkefni til að efla raddir ungs fólks
Á norðurslóðum er hlýnunin næstum því fjórfalt hraðari en annars staðar í heiminum og það hefur mikil áhrif á samfélögin, langt út fyrir landfræðileg mörk. Áhrifin á vistkerfi og fjölbreytni á norðurslóðum eru nú þegar mikil en einnig á samfélög og frumbyggja.
Breytingarnar snerta sérstaklega ungt fólk á svæðinu, líf þess og framtíðarsýn.
Norræna rannsóknarstofnunin í skipulags- og byggðamálum, Nordregio, leggur í verkefni sínu, Young Voices from the Arctic, áherslu á þörfina á að styrkja raddir ungs fólks og lýsir eftir frekari rannsóknum á aðkomu ungs fólks þegar kemur að því að takast á við áhrif loftslagsbreytinga og þiðnunar sífrera.
„Á Grænlandi fetar unga fólkið veginn á milli hins hefðbundna og nútímans og tekst á við áskoranir vegna loftslagsbreytinga með blöndu af von og örvæntingu. Það er stolt af menningu sinni og sjá má breytingu frá skömm yfir í sjálfstjáningu sem styrkir sjálfsmynd þess,“ segir Leneisja Jungsberg, sérfræðingur hjá Nordregio.
Fjármagn til fyrirtækja með grænar lausnir
„Margar nýskapandi grænar lausnir koma frá Norðurlöndum, einnig norðurslóðum,“ segir Anne Mette Guerrero, fjárfestingarráðgjafi hjá Nefco.
Norræna fjárfestingarfélagið Nefco vinnur að því að flýta grænu umskiptunum með því að fjármagna grænar norrænar lausnir sem aðlaga má að alþjóðlegum mörkuðum.
Lítil og meðalstór fyrirtæki leika mikilvægt hlutverk í hinum grænu umskiptum.
„Markmið okkar er að fjármagna fleiri norræn fyrirtæki og stuðla þannig að vexti þeirra, samkeppnishæfi og grænum umskiptum, einkum í geirum þar sem norrænu löndin búa yfir lykilhæfni og nýskapandi lausnum.“