Loftslagsaðgerðir Norðurlanda og leiðin á COP29

23.02.24 | Fréttir
Ellemann COP28 Dubai
Photographer
Andreas Omvik

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á COP28 í ráðstefnuhöllinni Expo-City í Dúbaí.

Nú búa norrænu samstarfsþjóðirnar sig undir COP29, 29. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en á COP28 höfðu þær forgöngu um stofnun loftslagsbótasjóðs, rammaáætlun um hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum og samning um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.

Á meðan á COP28 stóð var norræni skálinn á bláa svæðinu vettvangur fyrir gagnsæ skoðanaskipta þar sem stutt var við framtaksverkefni sem miðuðu að því að auðga þekkingargrunninn fyrir stefnumótun og aðgerðir í loftslagsmálum, jafnt á Norðurlöndum sem á alþjóðavettvangi.  

„Norræna samstarfið miðar ekki aðeins að því að breyta Norðurlöndunum heldur einnig að skapa fyrirmynd fyrir heiminn allan. Það er stór þáttur í því af hverju við höfum tekið svo virkan þátt í loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna í öll þessi ár,“ segir Ellemann.

Á sjötta tug framtaksverkefna voru kynnt í norræna skálanum og unnið verður áfram að mörgum þeirra í aðdraganda COP29.  

Norræna samstarfið miðar ekki aðeins að því að breyta Norðurlöndunum heldur einnig að skapa fyrirmynd fyrir heiminn allan.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Helsti árangur og áherslusvið á COP28 og til lengri tíma:

  1. Skýrsla um norræna stöðutöku loftslagsmála: Sýndi þörfina á stærri skrefum í átt að kolefnishlutleysi, sem kallaði á yfirlýsingu ráðherranna.
  2. Ráðstafanir til aðlögunar að loftslagsbreytingum: Aðlögun með áherslu á samhæfingu og efnahagslegar aðgerðir.
  3. Endurnýjanleg framtíð: Norðurlöndin styðja við áform um að þrefalda framleiðslu endurnýjanlegrar orku og gegna forystuhlutverki í grænni nýsköpun og orkuskiptum.
  4. Fjármögnun loftslagsbótasjóðs: Í norrænni rannsókn er sjónum beint að nauðsynlegum nýjum fjármögnunarleiðum til að styðja við þróunarlönd.
  5. Fjármálastofnanir fyrir loftslagsmál: Norræni fjárfestingarbankinn, Norræni þróunarsjóðurinn og NEFCO leggja sitt af mörkum til að miðla dæmum um nýstárlega og árangursríka fjármögnun á sviði loftslagsmála á meðan á COP28 stendur.
  6. Sjálfbær matvælakerfi: Norðurlönd setja matvælakerfi á dagskrá og tengja heilbrigt mataræði við heilbrigða plánetu.
  7. Kynjajafnrétti: Ómissandi þáttur í norrænum aðgerðum í loftslagsmálum þar sem stuðlað er að forystu kvenna og inngildingarstefnum.

 

Norræn stöðutaka loftslagsmála

Þrátt fyrir að Norðurlöndin þyki skara fram úr þegar kemur að aðgerðum til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga undirstrikar norræn stöðutaka loftslagsmála, sem kynnt var á COP28, þá löngu vegferð sem fram undan er í átt að kolefnishlutleysi. Í yfirlýsingu sinni taka norrænu loftslags- og umhverfisráðherrarnir mið af tilmælum skýrslunnar og skuldbinda sig til að efla samstarfið enn frekar í ljósi sérstakrar ábyrgðar og hagstæðrar stöðu Norðurlanda til að auka til muna kolefnislausa og endurnýjanlega orku fyrir árið 2030, auk þess að hvetja til þess að hætt verði að nota og niðurgreiða jarðefnaeldsneyti um heim allan. 

Undanfarin ár hafa orðið miklar veðurhamfarir á Norðurlöndum svo sem skógareldar, þurrkar og flóð. Viðbúnaður og seigla samfélaga verða áfram í brennidepli, sem og loftslagsáhætta sem nær yfir landamæri, svo sem truflanir á aðfangakeðjum og í matvælamálum. Spurningar um ábyrgð, afkastagetu og veikleika eru skoðaðar ofan í kjölinn og nýjar leiðir til að takast á við mismunandi þætti aðlögunarvandamála eru kannaðar og verða kynntar á árinu 2024.

 Á COP28 var ákveðin rammaáætlun um hnattræn viðbrögð við loftslagsbreytingum. Í norrænu samstarfi verður áfram lögð áhersla á að styðja við og leiðbeina ríkjum við að skapa þróttmikil samfélög. 

Stuðlað að endurnýjanlegri framtíð

Norðurlöndin eru brautryðjendur í umhverfisvænni tækni og nú er markmiðið að þrefalda framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Nú skoða löndin í sameiningu ýmsar endurnýjanlegar auðlindir, þar á meðal vind-, vatns- og sólarorku, og eru að innleiða nýstárleg skref til að fella þessar orkuuppsprettur inn í landskerfin. Í aðdraganda COP28 setti norræna ráðherranefndin á fót vettvang til að styðja við Sharm el-Sheik MWP-áætlunina (Sharm el-Sheikh Mitigation Ambition and Implementation Work Programme) þar sem einblínt er á orkuskiptin. Þar leiða saman hesta sína norrænir hagsmunaaðilar, jafnt aðilar úr einkageiranum sem opinberir embættismenn og þekkingarstofnanir, til að leggja sitt af mörkum til lausna fyrir Norðurlönd og alþjóðasamfélagið.

Loftslagsfjármagn virkjað

Þótt búist sé við að meiri áhersla verði lögð á loftslagsfjármögnun á COP29 en á nokkurri annarri loftslagsráðstefnu til þessa hefur loftslagsfjármögnun verið lykilatriði hjá Norðurlöndunum áratugum saman, sem sést einna best á því að þrjár norrænar fjármálastofnanir hafa átt lykilþátt í að beina sjónum fjármálageirans að loftslagsmálum. Á COP28 kynnti Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) loftslagsstefnu sína í samræmi við Parísarsamkomulagið með áherslu á raunhæf, vísindaleg markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með fjármögnunarstarfsemi og -rekstri sínum. Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) kynnti afrakstur vinnu sinnar að blönduðum fjármálum en NEFCO sýndi áþreifanleg dæmi um hvernig félagið aðstoðar einkageirann við að draga úr áhættu markaðsumsvifa, auka umfang og innleiða nýstárleg viðskiptalíkön í þróunarlöndum. 

Heilbrigt fólk, heilbrigð jörð

Sjálfbær matvælakerfi skipta sköpum fyrir sjálfbærni í bæði heilbrigðis- og umhverfismálum og frá árinu 2017 hafa Norðurlönd stuðlað að því að matvælaframleiðsla og -neysla verði hluti af loftslagsáætlunum. Með útgáfu nýrra norrænna næringarráðlegginga árið 2023 komu fram ótvíræð tengsl milli heilsu fólks og heilsu jarðar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfesti þessi tengsl á COP28 og vinna á þessu sviði heldur áfram.

„Ef matvælakerfi tryggðu öllum heilbrigt mataræði gætum við bjargað 8 milljónum mannslífa á ári. Norðurlönd hafa verið brautryðjendur í ýmissi stefnumörkun, þar á meðal í því að tengja saman loftslags- og næringarmál,“ sagði dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á COP28. 

Loftslagsstefna er jafnréttisstefna

Eftir nokkra mánuði verður birt nýtt mat á norrænni reynslu af samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við græn og sanngjörn orkuskipti. Vonast er til að skýrslan geti orðið mikilvægt framlag til mats á vinnu- og aðgerðaáætlun UNFCC (skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) í kynja- og jafnréttismálum á 61. SBI-þinginu sem fram fer í Bonn í júní næstkomandi.

Á COP28 hleypti norrænu samstarfsþjóðirnar af stokkunum „Norræna þekkingarbankanum um kynja- og loftslagsmál“ þar sem teknar eru saman nýjustu og bestu rannsóknirnar á mikilvægi þess að líta til kynjajafnréttis í loftslagsstefnumótun.

Fordæmi fyrir heiminn allan

Með norrænu samstarfi er mörkuð stefna í átt að sjálfbærri og sanngjarnri framtíð. Með heildstæðri sýn á breytinguna frá jarðefnaeldsneyti, eflingu endurnýjanlegra orkukerfa og viðleitni til að auka samfélagslegan skilning og þátttöku í orkuskiptunum, samhliða verkefnum um kynjajafnrétti og heilbrigðari matvælakerfi, eru Norðurlöndin ekki bara að ímynda sér sjálfbæra framtíð, heldur eru þau líka að móta hana. 

„Í skugga sívaxandi loftslagskreppu býður norræna fyrirmyndin upp á von og stefnu, sem sannar að með samheldni, framtíðarsýn og ákveðni að vopni er sjálfbær framtíð innan seilingar. Framtíðarsýn okkar um kolefnishlutlaust samfélag er samfélag sem er í jafnvægi, jafnt félagslega sem umhverfislega; snjallara samfélag með lýðræði án aðgreiningar og langtímastefnu,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Lokaorð Karenar Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, í ávarpi hennar á allsherjarþingi COP28 voru: 

„Umskiptin yfir í kolefnishlutlaus samfélög þurfa að taka til allra og vera sanngjörn fyrir öll. Við erum reiðubúin að vinna með ykkur öllum til að stuðla að nauðsynlegum breytingum.“

Vertu áskrifandi að fréttabréfinu okkar og fáðu nýjustu fréttir frá norræna samstarfinu um loftslagsbreytingar, umhverfisverkefni og sjálfbæra lifnaðarhætti.