„Á morgun er aldrei nýr dagur“ – safnrit um það að alast upp í fátækt á Norðurlöndum

08.11.16 | Fréttir
Ordskalv
Photographer
Anna Rosenberg
„Þegar við förum inn í salinn með appelsínugula veggfóðrinu verð ég að framvísa skilríkjum. Börn eru ekki velkomin í bingósalinn að sjá foreldra sína spila frá sér bæturnar. Ríkið stendur sig vel að því leyti. Mamma flýtir sér að skjá, og hunsar mig síðan klukkustundum saman. Ég kaupi mér samloku, tek ostsneiðina af og sný henni við. Sný henni svo aftur við.“

Þetta brot er úr frásögninni „Tomgång“ eftir Jennie Johansson. Hún er á meðal tuttugu og fjögurra ungra höfunda sem eiga efni í safnbókinni I morgon är aldrig en ny dag (Á morgun er aldrei nýr dagur), sem Ordskælv gefur út þann 20. nóvember í tilefni af afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Allir textarnir í bókinni hverfast um sama þema: reynsluna af því að alast upp við fjárhagskröggur á Norðurlöndum. 

Dregnar eru upp afar persónulegar svipmyndir af heimi sem annars er mörgum dulinn. Hér er sagt frá því að finnast maður hljóta að vera eins slæmur og slæma hverfið sem maður býr í, um mótsagnakenndar tilfinningar sem fylgja því að flytja aftur heim af munaðarleysingjahælinu, og um það að reyna að fóta sig eftir að hafa flúið stríð.

„Það besta við skrif af þessu tagi er að maður lærir ýmislegt nýtt um sjálfan sig. Hluti sem maður hefur kannski aldrei hugsað upphátt fyrr. Og þó að það geti verið erfitt að skrifa um slíkar upplifanir, þá er mikilvægt að aðrir geti öðlast hlutdeild í þeim,“ segir Jennie Johansson, sem stundar nám í fjölmiðlafræði í Svíþjóð.

Bókin er afurð ritlistarverkefnis fyrir ungmenni frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Við skrifin hafa ungmennin notið stuðnings Ordskælv, ritsmiðju og forlags í Kaupmannahöfn sem ekki er rekið í hagnaðarskyni. Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) og Norræna ráðherranefndin um menningarmál höfðu frumkvæði að verkefninu.

Útkoman er falleg og áhrifamikil bók um annars konar Norðurlönd. Hér er þeim Norðurlöndum, sem enginn vill tala um, ljáð sterk rödd.

24 norrænir listamenn (meðal annarra John Kørner, Gabríela Friðriksdóttir, Hannu Väisänen og Patrik Gustavsson) hafa lagt verkefninu lið með myndskreytingum sem voru unnar sérstaklega fyrir bókina.

Á vordögum 2016 tóku rithöfundarnir ungu þátt í vinnusmiðjum þar sem þeir nutu aðstoðar leiðbeinenda á eigin móðurmáli. Í júní hittust ungmennin svo í lýðháskólanum á Biskops Arnö, þar sem þau hittu einnig aðra rithöfunda og ritstjóra.

„Textinn minn varð til meðan ég dvaldi á Biskops Arnö. Það besta var að hitta fjöldann allan af allskonar fólki og sameinast um þetta forboðna umfjöllunarefni – fátæktina. Ég sá sjálfa mig í mörgum af frásögnum hinna,“ segir Jennie Johansson.


TIL AÐ KAUPA BÓKINA: Leggið inn pöntun á www.ordskaelv.org Bókin kostar 250 da.kr. auk burðargjalds.

TIL AÐ FÁ NÁNARI UPPLÝSINGAR EÐA TAKA VIÐTÖL VIÐ HÖFUNDANA:

Danmörk: Camilla Gammel, camilla@ordskaelv.org, +45 22153705

Svíþjóð: Kajsa Sundin, ksksundin@gmail.com, +46 70 377 81 55

Finnland: Liza Antonova, lisaantonova@gmail.com, +358445420040

Noregur: Karin Kjällsmyr, Karin.kallsmyr@vfb.no, +47 91141685

Ísland: Sunna Dís Másdóttir, sunnadis@nordice.is, +354 699 3936

Færeyjar: Inger Smærup Sørensen, inger@nlh.fo, +298 224673

Grænland: Nina paninoir@gmail.com, +299 54 87 85 eða Katja Vahl, katja@napa.gl, +299 58 92 59

 

ÖLL SEM VILJA KOMA Í ÚTGÁFUHÓF BÓKARINNAR Í HELSINKI ÞANN 18. NÓVEMBER eru hjartanlega velkomin! 17:00–20:00, Kulturkontakt Nord (Norræna menningargáttin), Kaisaniemenkatu 9, Helsinki, Finnlandi.

 

UM BÓKINA: I morgon är aldrig en ny dag (Á morgun er aldrei nýr dagur). Útgefandi: Ordskælv. Allir textar í bókinni eru bæði á ensku og á móðurmáli höfundar. ISBN: 978-87-993443-3-8 Blaðsíðufjöldi: 224. Einar Már Guðmundsson ritaði formála.