Norrænir styrkir til félagasamtaka
Lifandi borgarasamfélag er einn af hornsteinum lýðræðis á Norðurlöndum. Þess vegna rennur rúmlega ein milljón evra árlega í gegnum samstarfsvettvang norrænu ríkisstjórnanna, Norrænu ráðherranefndina, til áætlunarinnar. Féð skiptist í þrjá sjóði sem hægt er að sækja um styrki úr á mismunandi tíma ársins.
Fyrstu umsóknarlotur í mars
Fyrst eru það Demos menntun og Demos menning, en umsóknartímabil beggja er 12. mars til 12. apríl. Demos menntun styður við verkefni þar sem áhersla er lögð á skilning eða þekkingu ungs fólks á Norðurlöndum eða norrænum tungumálum en einnig verkefni sem miða að því að efla norrænt sjónarhorn í blaðamennsku. Demos menning styður við verkefni sem efla norrænt menningarsamstarf með sérstaka áherslu á samstarf tónlistarsveita, samspil og bókmenntir.
Demos samstarfsnet er með umsóknartíma 13. ágúst til 13. september og styrkir fundi og samstarfsnet sem efla rödd borgarasamfélagsins og möguleika félagasamtaka á að hafa áhrif á samfélagið.
Aðilar frá þremur löndum
„Mörg frjáls félagasamtök, eða borgarasamtök eins og við segjum í Finnlandi, eiga þegar í samstarfi við hliðstæð samtök í öðru landi. Fjármögnun í gegnum Demos getur hjálpað til við að koma á öflugra samstarfi til lengri tíma,“ segir Anne Malmström, styrkjaráðgjafi hjá Norrænu menningargáttinni sem sér um Demos.
Anne Malmström leggur áherslu á að fyrri umsækjendur hafi lýst umsóknarferlinu sem einföldu og að það borgi sig að virkja samstarfsaðila sína strax.
„Hvert verkefni verður að hafa aðila frá að minnsta kosti þremur norrænum löndum. Ef allir eru sammála um stefnu verkefnisins er einfalt að ganga frá umsókn og skila henni inn í umsóknargáttina,“ segir Malmström.