Noregur leggur áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði

02.02.17 | Fréttir
Solveig Horne
Photographer
© Ilja C. Hendel
Á Norðurlöndum eru konur næstum jafn virkar á vinnumarkaði og karlar. Jafnframt bíða ýmis jafnréttistengd viðfangsefni úrlausnar. Þetta segir jafnréttisráðherra Noregs, sem tekur nú við formennsku í norrænu samstarfi á sviði jafnréttismála.

Noregur tók við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 1. janúar. Áætlunin um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála tekur m.a. til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og nethatri, en þar halda Norðmenn áfram starfi sem formennskulönd síðustu ára hafa hafið. Auk þess hefur Noregur ákveðið að vekja athygli á jafnréttismálum á vinnumarkaði. Dagana 7.–8. febrúar býður Noregur til norrænnar ráðstefnu um málefnið í Ósló. Meðal umræðuefna verða leiðir til að styrkja stöðu kvenna í hópi innflytjenda á vinnumarkaði, föðurhlutverkið árið 2017 og leiðir til að koma á jafnrétti í stjórnunar- og valdastöðum atvinnulífsins. Þátttakendur verða fræðimenn, stjórnendur úr atvinnulífinu, fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og stjórnmálamenn.

„Það að geta verið á vinnumarkaði og séð sér farborða er ein af grunnforsendum jafnréttis,“ segir Solveig Horne, jafnréttisráðherra Noregs. Jafnframt telur hún að ýmis viðfangsefni þarfnist enn úrlausnar.

„Konur eru í minnihluta í stjórnunarstöðum í einkageiranum og enn er algengt að karlar og konur velji sér starfsvettvang sem er hefðbundinn fyrir kyn þeirra. Við þurfum fleiri kvenkyns verkfræðinga og fleiri karlkyns leikskólakennara.“

Jafnrétti á vinnumarkaði er einnig meginþema á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í ár, og mun verða á dagskránni í opinberum pallborðsumræðum með þátttöku norrænu jafnréttisráðherranna.

 

Stefnt að innleiðingu Istanbúl-samningsins

Á síðasta ári einbeitti formennska Finnlands sér að góðum starfsháttum og lausnum til að vinda ofan af ofbeldismynstri í nánum samböndum. Var meðal annars haldin ráðstefna þar sem áhersla var lögð á gerendur ofbeldis. Norðmenn munu halda þessu starfi áfram og efna til verkefnis um innleiðingu Istanbúl-samningsins. Verkefnið verður kynnt á norrænni ráðstefnu um ofbeldi sem Noregur býður til dagana 29.–30. nóvember.

„Ofbeldi er samfélagsvandi, lýðheilsuvandi og síðast en ekki síst felst í því áskorun fyrir jafnréttið. Þolendur ofbeldis eiga að njóta verndar stuðningsúrræða og réttarkerfisins. Einnig er mikilvægt að grípa til aðgerða sem beinast að gerendum, í því skyni að fyrirbyggja ofbeldi,“ segir Solveig Horne.

Markmiðið með verkefninu er að kanna hvernig norrænu löndin haga innleiðingu á þeim skuldbindingum sem kveðið er á um í Istanbúl-samningnum. Verkefnið miðar að því að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi og greina þá vernd og stuðning sem þolendur ofbeldis hljóta.

 

Upplýsingapakki handa ungmennum um nethatur

Leiðir til að stemma stigu við nethatri eru einnig ofarlega á baugi í norrænu löndunum. Það að athugasemdakerfi vefmiðla fyllist af ógnandi og kvenfjandsamlegum ummælum er ekki síst lýðræðislegur vandi, þar sem það skapar hættu á þöggun í opinberu rými. Bæði Danmörk og Finnland vöktu athygli á málefninu í formennskutíð sinni. Vandinn er m.a. sá að norrænu löndin hafa ekki uppfært löggjöf sína á þessu sviði. Norræna ráðherranefndin hefur falið Norrænu upplýsingaveitunni um kynjafræði, NIKK, að kortleggja lagaákvæði um hatursfulla og ógnandi orðræðu á netinu og kynna niðurstöðurnar á vordögum.
Dagana 21.–22. júní býður Noregur til norrænnar ráðstefnu um málefnið.

„Við höldum áfram starfi Finnlands og Danmerkur gegn hatursorðræðu og hlökkum til að fá kortlagningu NIKK í hendur, auk tillagna að leiðum til að stemma stigu við hatursorðræðu. Noregur hyggst einnig láta útbúa upplýsingapakka um málefnið handa börnum og ungmennum í öllum norrænu löndunum,“ segir Solveig Horne.

Verkefni með áherslu á karla og jafnrétti eru einnig á dagskránni hjá Noregi. Áhersla verður lögð á umræður um karla og heilsufar, karla og menntun og karla og karlmennskuímynd.

„Jafnrétti verður ekki náð án aðkomu karlmanna. Virk þátttaka karla og drengja hefur verið mikilvæg fyrir stefnu Norðurlanda í jafnréttismálum undanfarinn áratug,“ segir Solveig Horne.

Hvaða ávinningur telur þú, sem jafnréttisráðherra, að sé af norrænu samstarfi á sviði jafnréttismála? 
„Í meira en 40 ár höfum við unnið saman að viðfangsefnum á sviði jafnréttismála á Norðurlöndum. Jafnrétti kynjanna er eitt af því sem einkennir norrænu löndin. Það er mikilvæg forsenda þess að skapa traust velferðarríki og bæta líf einstaklinga. Ég tel að norrænt samstarf stuðli að því að við bætum hvert annað,“ segir Solveig Horne að lokum.

 

  • Hér er hægt að lesa áætlun Noregs fyrir norrænt samstarf á sviði jafnréttismála.