Skýrsla Bo Könbergs kynnt í Reykjavík

13.06.14 | Fréttir
Överlämningen av Könbergrapporten.
Photographer
Anton Brink/norden.org
Bo Könberg, fyrrverandi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Svíþjóðar, kynnti óháða skýrslu um hvernig hægt er að þróa og efla norrænt samstarf í heilbrigðismálum á næstu 5-10 árum.

Skýrslan inniheldur fjórtán tillögur sem eiga að geta komið til framkvæmdar á næstu 5-10 árum í norrænu samstarfi í heilbrigðismálum. Tillögurnar lúta meðal annars að starfsmannaskiptum, skrásetningu innan rannsókna, lýðheilsu og læknismeðferð á sjaldgæfum sjúkdómum.

Bo Könberg sagðist vera ánægður með að hafa verið treyst fyrir skýrslugerðinni og fá þannig að nýta áralanga reynslu sína við stefnumótun í heilbrigðismálum:
- Markmið okkar var að senda frá okkur skýrslu sem væri hnitmiðuð, aðgengileg og auðvelt að vinna eftir. Við settum okkur það markmið að kynna þrettán áhersluatriði en þau urðu á endanum fjórtán.

Meðal þess sem Bo Könberg nefndi sérstaklega til sögunnar á blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum í Reykjavík var notkun sýklalyfja:
- Of mikil notkun sýklalyfja veldur því að virkni þeirra minnkar eða hverfur og því miður er almenna þróunin í þá áttina. Norðurlöndin neyta ekki mikils magns af sýklalyfjum miðað við mörg önnur svæði. Þrátt fyrir það ættu Norðurlöndin að setja sér það markmið að notkun sýklalyfja sé lægst þar í Evrópu eftir fimm ár.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, var einnig viðstaddur athöfnina í Ráðherrabústaðnum. Hann sagði að fyrirmynd skýrslunnar sé Stoltenberg-skýrslan sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina 2009 og fjallaði um framtíðaráherslur í norrænu samstarfi á sviði utanríkis- og öryggismála. Markmiðið er að skýrsla Bo Könbergs verði upplegg umræðna og hafi álíka stefnumótandi áhrif og Stoltenberg-skýrslan hafði.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðismálaráðherra Íslands, tók við fyrsta eintaki skýrslunnar. Hann lagði við það tækifæri áherslu á næstu skref í sambandi við vinnu út frá skýrslunni en hún verður tekin til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október 2014.