Vilja norrænan ráðherra um málefni barna og ungmenna

02.12.14 | Fréttir
Elín Hirst
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð er þeirrar skoðunar að í norrænu samstarfi í dag sé ekki gert nægilegt ráð fyrir börnum og ungmennum. Þingmennirnir biðja því Norrænu ráðherranefndina að tilnefna ráðherra til að fara
með mál sem snerta börn og ungmenni.

Norðurlandaráð er þeirrar skoðunar að Stefnu í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum sé ekki fylgt nægilega vel eftir. Ein af ástæðum þess er að stefnunni er sinnt þverfaglega, í samstarfi hinna ýmsu ráðherranefnda, en það krefst þess að samhæfing milli nefndanna sé betri en verið hefur hingað til.

Á grundvelli þessa biður Norðurlandaráð Norrænu ráðherranefndina að tilnefna ráðherra til að fara með mál sem snerta börn og ungmenni. Verkefni ráðherrans verða að fylgja eftir Stefnu í málefnum barna og ungmenna og að tryggja að sérþekking á málefnum barna og ungmenna verði fyrir hendi á öllum stigum norræns samstarfs.

Breið samstaða um tillöguna

Tillagan um að efla starfið um málefni barna og ungmenna var lögð fram af þremur nefndum Norðurlandaráðs; borgara- og neytendanefnd, velferðarnefnd og menningar- og menntamálanefnd.

„Við teljum tímabært að setja málefni tengd börnum og ungmennum í forgang í norrænu samstarfi. Með því að styrkja samstarf mismunandi sviða – til að mynda milli sviða mennta-, heilbrigðis- og menningarmála – höfum við mesta möguleika á að tryggja að málum sem snerta börn og ungmenni verði fylgt betur eftir. Verði ráðherra tilnefndur til að fara með þessi mál verður norrænt samstarf betur í stakk búið til að gæta hagsmuna barna og ungmenna,“ segir Elín Hirst (Sj.), talskona Norðurlandaráðs um málefni barna og ungmenna.

Vilja styrkja stöðu barna og ungmenna

Norðurlandaráð leggur einnig til að umboð Norrænu barna- og ungmennanefndarinnar (NORDBUK) verði eflt og að nefndin hafi árlegt samráð við ráðherrann sem verður fyrir valinu ásamt Norðurlandaráði æskunnar (UNR). Þá óskar ráðið eftir að gripið verði til aðgerða til að efla og tryggja kunnáttu og hæfni í málefnum barna og ungmenna innan samstarfssviða Norrænu ráðherranefndarinnar.

Lesið tillöguna í heild hér:

Nefndartillaga um eflingu barna- og ungmennastefnu í norrænu samstarfi