2015 Jon Fosse, Noregur: Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd
Um höfundinn
Jon Fosse (f. 1959) hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem leikskáld, en verk hans hafa verið sett á svið í fleiri en eitt þúsund mismunandi leikgerðum í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum. Þá hafa skáldsögur Fosses vakið mikla athygli í heimalandi hans, Noregi, en þar ber helst að nefna Morgon og kveld (sem var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2001) og Det er Ales (2004).
Um vinningsverkið
Þríleikur Jons Fosse samanstendur af þremur sögum um ungt par, Asle og Alidu. Í fyrsta hlutanum, Andvake, eru þau á ferðalagi gegnum Björgvin í Noregi, sem er umvafin þykkri þoku, í leit að húsnæði þar sem Alida getur alið barn þeirra. Sögutími er óljós: brátt virðist sem við séum stödd á 19. öld, skömmu síðar verður ekki betur séð en að siðir miðalda séu við lýði. Slys – eða var það glæpur? breytir stefnu atburðarásarinnar, en það er ekki fyrr en í öðrum hluta, Olavs draumar, sem lesanda verður fyllilega ljóst hverjar afleiðingarnar eru fyrir parið og nýfæddan soninn. Í lokahluta þríleiksins, Kveldsvævd, hittum við aftur Alidu, sem reynir að hefja nýtt líf. Gegnum afkomendur Alidu og Asle fær lesandinn svo að vita hvað kom fyrir þau og barnið. Á hinum tæplega þrjú hundruð síðum bókarinnar eru dregnar upp meitlaðar myndir í sögu sem teygir sig yfir nokkrar kynslóðir og aldir. Verkum Fosses hefur verið lýst sem endurtekningasömum og langdregnum, en líkt og aðrir textar hans rúma þessar þrjár stuttu frásagnir ógrynni dramatískra atburða. Hér eru dauðsföll og morð, börn og fullorðið fólk sem missa hvert annað, fólk í opinberum stöðum sem beitir ofbeldi, en ofbeldi í nánum samböndum kemur einnig fyrir. Aðalpersónurnar verða fyrir ofbeldi og eru ekki yfir það hafnar að beita því gagnvart öðrum þegar nauðsyn krefur. Bókarhlutarnir þrír mynda heildstæða, sérstaka atburðarás sem er í senn einföld og margslungin. Glæpurinn sem framinn er í fyrsta hluta, glæpasögustíll í bland við stælingu á guðspjallinu; allt fær þetta annað yfirbragð þegar öll sagan hefur verið sögð: hún á sér hvorttveggja stað uppi á sviði draumkenndrar ljóðrænu og kirfilega niðri á jörðinni.
Andvake. Olavs draumar. Kveldsvævd
Útgáfa: Bókaútgáfan Samlaget
Útgáfuár: 2014
Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar
Verkið sem hlýtur bókmenntaverðlaunin að þessu sinni er óvenju gott dæmi um formræna nýsköpun og umfjöllunarefni sem snertir lesandann þvert á tíma og rúm. Hér er á ferð tímalaus ástarsaga; prósi sem hefur greinilega ljóðræna eiginleika og jafnframt meðvitaða og gáskafulla afstöðu til mannkynssögunnar. Fáum er gefið að móta sitt eigið bókmenntaform á sama hátt og Fosse. Endurómur úr Biblíusögum og kristnum leiðslubókmenntum mætir spennuþrungnum þráðum og ljóðrænu myndmáli í frásögn af tveimur einstaklingum sem elska hvor annan, berskjaldaðir gagnvart umheiminum og gangi sögunnar.