Norræn yfirlýsing um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun Reykjavíkuryfirlýsingin (Endurskoðuð 2022)

02.11.16 | Yfirlýsing
Norðurlönd eru opið mennta- og vinnumarkaðssvæði. Norrænt samstarf á sviði mennta og atvinnu er umfangsmikið og náið og ber að halda því áfram og auka enn frekar.

Upplýsingar

Adopted
05.05.2022
Location
Trondheim

Þann 15. mars 1971 undirritaði Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) Samning um samstarf á sviði menningarmála. Þar var leitast við að auðvelda nemendum á háskólastigi og öðrum að afla sér menntunar og þreyta próf í menntastofnunum í öðrum norrænum löndum og tryggja gagnkvæma viðurkenningu lokaprófa og annarra vitnisburða um námsárangur.

Þann 9. júní 2004 undirritaði Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) Norræna yfirlýsingu um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun (Reykjavíkuryfirlýsinguna). Yfirlýsingin byggði á samningi Evrópuráðsins og UNESCO um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun á Evrópusvæðinu (Lissabonsamningnum um gagnkvæma viðurkenningu, (1997) og viðauka við hann. Reykjavíkuryfirlýsingin átti að stuðla að nánari samvinnu um gagnkvæma viðurkenningu á æðri menntun á Norðurlöndum.

Eftir áralangt og náið samstarf um viðurkenningar á vitnisburði um æðri menntun ákvað Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MRU) að endurskoða yfirlýsinguna og var nýtt samkomulag undirritað árið 2016. Með yfirlýsingu ráðherrafundar Evrópska háskólasvæðisins (EHEA) í Róm árið 2020 skuldbundu ráðherrarnir sig til að festa í sessi sjálfkrafa viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun. Endurskoðuð útgáfa Reykjavíkuryfirlýsingarinnar endurspeglar rótgróið samstarf Norðurlandaþjóðanna, skuldbindingu þeirra til fullrar gagnkvæmrar viðurkenningu á æðri menntun og afnám hindrana á hreyfanleika milli Norðurlandanna.

Samkvæmt norrænu samstarfsráðherrunum (MR-SAM) er brýnt að skapa eins góðar forsendur og unnt er fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja um Norðurlönd. Með það fyrir augum hyggjast Norðurlöndin, Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, vinna saman að því að ný löggjöf landanna og innleiðing ESBlöggjafar í löndunum skapi ekki nýjar hindranir og hamli ferðafrelsi innan svæðisins.

Norðurlandaþjóðirnar hafa unnið saman að menntamálum um margra ára skeið í tengslum við Lissabonsamninginn um gagnkvæma viðurkenningu og sem aðilar að Evrópska háskólasvæðinu. Löndin bera þar af leiðandi traust til þess kerfis sem fyrir er hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu á æðri menntun. Norrænt samstarfsnet um viðurkenningu erlendra prófa (NORRIC), sem ENIC/NARIC-skrifstofurnar[1] í löndunum standa að, hefur greint og leyst vandamál er varða viðurkenningu æðri menntunar og jafnframt aukið gæði og skilvirkni í starfsháttum við viðurkenningar slíkrar menntunar innan svæðisins.

Gagnkvæmt traust og samvinna norrænu landanna liggja því til grundvallar að viðurkenning vitnisburða um æðri menntun sé framkvæmd sjálfkrafa. Auk þess hefur verið kveðið á um réttinn til að sækja um inngöngu í nám á næsta skólastigi í norrænum samningum allt frá árinu 1996. Í samningnum um aðgang að æðri menntun, sem gerður var 1996 og endurskoðaður 2018, segir: „Umsækjandi sem fullnægir undirbúningskröfum til æðri menntunar í því Norðurlandaríki þar sem hann er búsettur telst einnig fullnægja undirbúningskröfum til æðri menntunar í öðrum ríkjum Norðurlanda.“

Norræn samvinna um viðurkenningu vitnisburða um æðri menntun greiðir fyrir enn nánara samstarfi um sameiginlegar viðmiðunarreglur og góða starfshætti við viðurkenningu lokaprófa, námslengdar og fyrri menntunar. Norðurlönd munu áfram vinna að framgangi hugmyndafræði sjálfvirkrar viðurkenningar.

Menntamála- og rannsóknaráðherrarnir staðfestu norræn markmið og viðmiðunarreglur í hinni upprunalegu Reykjavíkuryfirlýsingu. Hin endurskoðaða útgáfa mun leiða til enn nánara samstarfs viðeigandi aðila, skapa grundvöll fyrir aðlögun að breyttum aðstæðum, og greiða fyrir að unnið verði sameiginlega að því að fylgja eftir þróun á sviði æðri menntunar á Norðurlöndum og evrópskum vettvangi.

Hin endurskoðaða Reykjavíkuryfirlýsing á að tryggja að:

  • æðri menntun í norrænu ríkjunum njóti fullrar gagnkvæmrar viðurkenningar;
  • Norðurlandaþjóðirnar vinni saman að því að viðhalda trausti sín á milli sem er nauðsynlegt fyrir frekari innleiðingu á sjálfkrafa viðurkenningu;
  • Norðurlandaþjóðirnar efli áfram samstarf á sviði stjórnsýslu og aðferðafræði við mat á æðri menntun sem aflað er á Norðurlöndum og annars staðar, t.d. með því að skipa starfshópa og halda áfram að miðla upplýsingum og góðum starfsháttum á sviði æðri menntunar, einkum gegnum NORRICsamstarfsnetið. Viðeigandi ráðuneyti, yfirvöld og æðri menntastofnanir á Norðurlöndum munu taka virkan þátt í samstarfinu og miðlun upplýsinga;
  • Aðilar í löndunum endurskoði stöðugt hvernig yfirlýsingin er innleidd og henni beitt, greina aðstæður og þróun við beitingu hennar er þarfnast sérstakrar athygli og virkja viðeigandi hagsmunaaðila í starfinu

Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) mun fylgjast með framkvæmd yfirlýsingarinnar og hrinda viðeigandi aðgerðum í framkvæmd.

5. maí 2022, Trondheim 

Jesper Petersen, Ráðherra menntamála og rannsókna, Danmörk

Li Andsersson, Menntamálaráðherra, Finnland

Ásmundur Einar Daðason, Mennta- og barnamálaráðherra, Ísland

Ola Borten Moe, Ráðherra rannsókna og æðri menntunar, Noregur

Anna Ekström, Menntamálaráðherra, Svíþjóð

Jóannes V. Hansen, Sendimaður, Færeyjar

Peter P. Olsen, Ráðherra rannsókna og æðri menntunar, Grænland

Alfons Röblom, Háskólaráðherra, Álandseyjar

 

[1] European Network of National Information Centres on academic recognition and mobility, ENIC (Evrópskt samstarfsnet upplýsingamiðstöðva landanna á sviði viðurkenningar æðri menntunar og hreyfanleika), National Academic Recognition Information Centres, NARIC (Upplýsingamiðstöðvar í löndunum á sviði viðurkenningar æðri menntunar).

Contact information