Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðgang að æðri menntun

01.01.70 | Yfirlýsing
Útgáfa þessi er óopinber og aðlöguð til að gera textann aðgengilegri. Frumrit samningsins sem og samkomulagsins um breytingar eru í vörslu finnska utanríkisráðuneytisins. Samningurinn var fyrst undirritaður 3. september 1996. Hér á eftir fer óopinber og aðlöguð útgáfa af samningnum með þeim breytingum sem gerðar hafa verið samkvæmt samkomulagi um breytingar 13. mars 2000, 3. nóvember 2006, 23. apríl 2009, 31. október 2012 og 2. nóvember 2015. Inngangsorð og lokaákvæði eru ekki með í þessari útgáfu að undantöldum lokaákvæðum síðasta samkomulags um breytingu sem framlengir samninginn þannig að hann gildir til ársloka 2018.

Upplýsingar

1. gr.

Aðilar skuldbinda sig gagnkvæmt til að veita umsækjendum, sem búsettir eru í öðru Norðurlandaríki inngöngu í æðri menntastofnanir á vegum opinberra aðila, hver í sínu landi, með sömu eða sambærilegum skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi. Umsækjandi sem fullnægir undirbúningskröfum til æðri menntunar í því Norðurlandaríki þar sem hann er búsettur telst einnig fullnægja undirbúningskröfum til æðri menntunar í öðrum ríkjum Norðurlanda. Aðilar skuldbinda sig enn fremur til að stuðla eftir megni að því að hliðstæðar reglur gildi um opinberlega viðurkennda æðri menntun á vegum einkastofnana sem eru fjármagnaðar af hinu opinbera. Með æðri menntun er í þessum samningi átt við

í Danmörku: Menntun við háskóla og æðri menntun við aðrar menntastofnanir sem krefjast lokaprófs úr framhaldsskóla eða hliðstæðrar undirbúningsmenntunar;

í Finnlandi: Menntun við almenna háskóla, aðra háskóla, verkmenntaháskóla og hliðstæða menntun sem byggist á stúdentsprófi eða annarri menntun sem veitir réttindi til framhaldsnáms;

á Íslandi: Alla menntun er byggist á stúdentsprófi eða sambærilegri undirbúningsmenntun;

í Noregi: Menntun við almenna háskóla og aðra háskóla eða hliðstæðar stofnanir sem byggist á afloknu og viðurkenndu námi í framhaldsskóla eða hliðstæðri menntun er veitir rétt til framhaldsnáms;

í Svíþjóð: Menntun við almenna háskóla og aðra háskóla eða hliðstæðar stofnanir er byggist á námi í framhaldsskóla sem skipulagt er á landsvísu eða hliðstæðri undirbúningsmenntun og fellur undir reglugerð um háskóla.

Samningurinn gildir ekki um aðgang að rannsóknarnámi.

2. gr.

Ákvæði þessa samnings fela ekki í sér neina undanþágu frá þeim reglum um dvalarleyfi er gilda í hverju landi.

Ákvæði þessa samnings hindra ekki að gerðir séu tvíhliða samningar milli aðila um kaup eða hliðstæða ráðstöfun á námssætum á einstökum sértækum námsbrautum.

3. gr.

Ef krafa er gerð um sérstaka hæfni eða greinabundna þekkingu sem skilyrði fyrir inngöngu í nám á tilteknu sviði æðri menntunar verða umsækjendur frá öðrum Norðurlandaríkjum að fullnægja slíkum kröfum með sambærilegum hætti og umsækjendur frá viðkomandi landi.

4. gr.

Ef inntaka nemenda í nám til æðri menntunar er takmörkuð skal val úr hópi umsækjenda frá öðrum Norðurlandaríkjum fara fram samkvæmt sömu eða sambærilegum reglum og þeim er gilda fyrir umsækjendur frá viðkomandi landi. Skal þá leitast við að nota valreglur sem jafna eins og kostur er möguleika umsækjenda frá öðrum Norðurlandaríkjum og umsækjenda frá viðkomandi ríki.

5. gr.

Aðilar eru sammála um að umsækjandi sem hefur lokið hluta af háskólanámi sínu í einu aðildarríkjanna á fullnægjandi hátt eigi að fá þann hluta viðurkenndan ef hann heldur áfram hliðstæðu námi í öðru aðildarríki. Mat á vitnisburði um nám sem skírskotað er til er í höndum þeirrar menntastofnunar þar sem viðurkenningar er óskað.

6. gr.

Aðilar skulu sjá um að veita upplýsingar um námsmöguleika við æðri menntastofnanir á Norðurlöndum.

7. gr.

Hvert almanaksár greiða Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð bætur til móttökulandsins fyrir sína námsmenn er stunda æðra nám í öðru Norðurlandaríki. Þetta ákvæði gildir ekki fyrir Ísland.

Ráðherranefnd Norðurlanda samþykkir fjárhæð þeirra bóta sem hvert og eitt landanna fjögurra skal greiða.

Greiða skal fyrir 75% þeirra námsmanna, er fá námslán frá sínu heimalandi og samkvæmt reglum er þar gilda, vegna æðri menntunar í öðru norrænu landi, enda falli hún undir 1. gr. samnings þessa. Árlegar greiðslur fyrir hvern námsmann eru 22.000 DKK. Greiðslur fyrir hvern námsmann hækka úr 22.000 DKK í 26.000 DKK árið 2013, og í 30.000 DKK árið 2014. Við greiðslu ársins 2014 skulu leggjast verðbætur sem miðast við danska vísitölu (vísitölu neysluverðs). Útreikningur verðbóta skal gerður af skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Danmerkur um verðlagsþróun í Danmörku frá janúar 2013 til janúar 2014. Þar á eftir skulu verðbætur reiknaðar á sama hátt ár hvert. Greiðslur milli landanna skulu reiknaðar sem viðbót við eða frádráttur frá framlagi þessara landa samkvæmt hinni árlegu fjárhagsáætlun um norrænt samstarf.

8. gr.

Til grundvallar áætlun um fjölda námsmanna skal leggja tölfræðilegar upplýsingar sem norrænu námsstuðningsstofnanirnar taka saman ár hvert fyrir Ráðherranefnd Norðurlanda. Námsmenn sem koma frá eða stunda nám í Færeyjum, á Grænlandi eða Álandseyjum skulu ekki taldir með og ekki heldur þeir sem stunda rannsóknarnám, þeir sem falla undir ákvæði 2. mgr. 2. gr. né þeir sem stunda nám innan vébanda NORDPLUS-áætlunarinnar eða annarra sambærilegra skiptaáætlana.

Almanaksárið sem samningurinn tekur gildi skulu greiðslurnar reiknaðar á grundvelli talna fyrir námsárið 1994-95. Námsmenn í ósérgreindu háskólanámi skulu ekki taldir með. Næstu tvö almanaksárin þar á eftir skulu greiðslurnar miðast við tölur fyrir námsárin 1995-96 annars vegar og 1996-97 hins vegar nema annað verði ákveðið af Ráðherranefnd Norðurlanda.

9. gr.

Aðilar skulu í sameiningu hafa eftirlit með framkvæmd samningsins og samþykkja aðgerðir er þróun mála þykir gefa tilefni til. Í þeim tilgangi skipar Ráðherranefnd Norðurlanda ráðgefandi nefnd sem eftir þörfum skal skila skýrslum til Ráðherranefndarinnar um framkvæmd samningsins og getur lagt fram tillögur til breytinga á og viðbóta við samninginn.

Lokaákvæði samkomulags um breytingar á samningnum frá 2. nóvember 2015

1. gr.

Ákvæði 2. mgr. 10. gr. samningsins orðast svo eftir breytingu: „Samningurinn gildir til ársloka 2018, nema annað verði ákveðið fyrir þann tíma.“

2. gr.

Samkomulag þetta tekur gildi 30 dögum eftir að allir aðilar hafa tilkynnt finnska utanríkisráðuneytinu um að þeir hafi samþykkt það.

Samkomulag þetta fellur úr gildi þegar samningurinn fellur úr gildi.

Að því er varðar Færeyjar og Grænland ásamt Álandseyjum öðlast samkomulag þetta gildi þrjátíu dögum eftir að finnska utanríkisráðuneytið hefur fengið tilkynningu um að það gildi fyrir Færeyjar og Grænland ásamt Álandseyjum.

Finnska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum aðilunum um móttöku þessara tilkynninga og um gildistöku samkomulagsins.

3. gr.

Frumrit þessa samkomulags skal komið til vörslu hjá finnska utanríkisráðuneytinu sem skal senda staðfest afrit af því til hinna aðilanna.

Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem hafa til þess fullt umboð, undirritað samkomulag þetta.

Gjört í Kaupmannahöfn 2. nóvember 2015 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og skulu allir textarnir jafngildir.

Tengiliður