Um Norrænu ráðherranefndina um löggjafarsamstarf (LAG)

Norræna lagasamstarfið byggir á rúmlega aldargamalli hefð. Löggjafarsamstarfið er tæki í starfi sem miðar að því að skapa sameiginlegar grundvallarreglur í löggjöf Norðurlandanna í samhljómi við almenn norræn gildi. Því er ætlað að styrkja lýðræðislega ákvarðanaferla í norrænu löndunum og efla réttaröryggi þeirra sem búa og dvelja á Norðurlöndum.

Samstarfi norrænu ríkisstjórnanna um löggjafarmál er stýrt af norrænu dómsmálaráðherrunum, en þeir sitja í ráðherranefndinni um löggjafarsamstarf.

Ráðherrarnir funda að minnsta kosti einu sinni á ári, ræða saman og taka sameiginlegar ákvarðanir á þeim sviðum þar sem norrænt samstarf er árangursríkara en ef unnið væri að málefnum í hverju landi fyrir sig. Þetta köllum við „norrænt notagildi“.

Embættismannanefndin um löggjafarsamstarf er skipuð fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum. Nefndin fundar að minnsta kosti þrisvar á ári. Embættismannanefndin stýrir starfinu og undirbýr fundi ráðherranna.

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn sér um dagleg störf og framkvæmd norræna ríkisstjórnarsamstarfsins. Á skrifstofunni er einnig sérstök stjórnsýslu- og lagadeild, sem undirbýr mál sem meðal annars eru tekin til umfjöllunar í ráðherranefndinni um löggjafarsamstarf. Skrifstofan sér einnig um að koma ýmsum málum, sem samþykkt hafa verið, í framkvæmd.

Norrænu dómsmálaráðherrarnir eiga einnig samstarf við starfssystkin sín í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og funda með þeim einu sinni á ári, þar sem rætt er um sameiginleg mikilvæg málefni. Embættismannanefndin starfar einnig með starfssystkinum sínum í Eystrasaltsríkjunum.

Á vettvangi norræna lagasamstarfsins er miðað að því að auka norræn tengsl, umræður og, þar sem við á, samhæfingu í starfi embættis- og stjórnmálafólks í tengslum við samninga á alþjóðavettvangi, til að mynda innan Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

Markmið og framtíðarsýn

Norræna lagasamstarfið fer fram innan ramma pólitískrar samstarfsáætlunar. Innan samstarfsáætlunarinnar eru aðgerðir skilgreindar og markmið sett árlega í formennskuáætlun.

Markmiðið með samstarfinu er að efla og samræma réttarreglur, meðal annars til að fækka stjórnsýsluhindrunum og auðvelda tengsl milli íbúa Norðurlandanna.

Auk þess á lagasamstarfið að efla samræmda framkvæmd ESB- og EES-laga og auka framlag til reglna sem settar eru á alþjóðavettvangi.