Um Norrænu ráðherranefndina um dómsmál (MR-JUST)

Löggjafarsamstarf Norðurlanda á sér meira en 100 ára sögu. Samstarfið nýtist norrænu löndunum við að styrkja sameiginlegar grundvallarreglur í norrænni löggjöf í samræmi við norrænt gildismat. Því er ætlað að efla lýðræðisleg ákvörðunarferli á Norðurlöndum og auka réttaröryggi þeirra sem þar búa og dveljast.

Samstarfi norrænu ríkisstjórnanna á sviði dómsmála er stýrt af dómsmálaráðherrunum, en þeir sitja í Ráðherranefnd um dómsmál (MR-JUST).

Dómsmálaráðherrarnir funda einu sinni á ári. Þar ræða þeir saman og taka sameiginlegar ákvarðanir á sviðum þar sem norrænt samstarf er árangursríkara en þegar unnið er að málefnum í hverju landi fyrir sig. Þetta er það sem við köllum norrænt notagildi.

Embættismannanefndin um dómsmál (EK-JUST) er skipuð fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum. Nefndin fundar að minnsta kosti þrisvar á ári. Embættismannanefndin stýrir starfinu og undirbýr fundi ráðherranna.

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn sér um dagleg störf og framkvæmd norræna ríkisstjórnarsamstarfsins. Það er einnig stjórnsýslu-og lagasvið skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, sem undirbýr mál sem meðal annars eru tekin til umfjöllunar í Ráðherranefndinni um dómsmál. Skrifstofan sér einnig um að koma ýmsum málum sem samþykkt hafa verið í framkvæmd.

Norrænu dómsmálaráðherrarnir eiga einnig samstarf við dómsmálaráðherra Eistlands, Lettlands og Litáens og funda með þeim árlega til að ræða sameiginleg áhersluatriði. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna nær einnig til embættismannanefndarinnar.

Einnig er það hluti af norrænu löggjafarsamstarfi að styrkja norræn tengsl, samtal og eftir þörfum samræmingu á stjórnsýslulegu og pólitísku stigi í tengslum við viðræður á alþjóðlegum vettvangi annars staðar, svo sem í Evrópuráðinu og Sameinuðu þjóðunum.

Markmið og framtíðarsýn

Norræna löggjafarsamstarfið byggir á viðamikilli, pólitískri samstarfsáætlun. Til viðbótar samstarfsáætluninni koma aðgerðir og markmið í tengslum við formennskuáætlanir til eins árs í senn.

Markmiðið með samstarfinu er að auka einsleitni innan réttarkerfisins m.a. til að draga úr óþörfum stjórnsýsluhindrunum og greiða fyrir sambandi á milli íbúa á Norðurlöndum.

Einnig er samstarfinu ætlað að styðja við samræmda innleiðingu ESB- og EES-löggjafar og vera öflugt framlag til þróunar laga og reglna á alþjóðlegum vettvangi.