Ákveðið að ráðast í norrænt samstarf um aðlögunarmál

06.09.16 | Fréttir
Børn i Mjølnerparken
Photographer
norden.org/Ane Cecilie Blichfeldt
Áform norrænu landanna um aukið samstarf um aðlögun flóttafólks komast óðum í markvissari farveg. Á fundi sínum í Kaupmannahöfn á þriðjudag samþykktu ráðherrarnir efni áætlunar sem á að vera grundvöllur samstarfsins.

Meginmarkið samstarfsáætlunarinnar er að styðja við starf landanna í aðlögunarmálum, bæði með því að miðla reynslu og skapa nýja þekkingu. 

Það verður meðal annars gert með því að stofna svonefnt „clearing central“; miðstöð sem mun þjóna hlutverki hugmyndabanka og jafnframt greiða fyrir samræmingu yfirvalda í löndunum, sveitarfélaga, sjálfboðasamtaka og ráðuneyta. Tvær af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar munu sjá um að koma miðstöðinni á fót. Norræna velferðarmiðstöðin mun hafa meginumsjón með verkefninu og eiga þar náið samstarf við Norrænu stofnunina um rannsóknir og þróun í byggðamálum (Nordregio).

Á fyrsta stigi verkefnisins fer fram nákvæm kortlagning á fyrirliggjandi þekkingu og rannsóknum á aðlögun, og þegar fram líða stundir verður einnig ýtt úr vör umfangsmiklu norrænu rannsóknarverkefni um efnið.  

„Það má segja að aðlögunaráætlunin sé eitt af mikilvægustu sviðum norræns samstarfs eins og er,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Aðlögunarmálin snerta á mörgum sviðum samfélagsins og því ekki hægt að leggja ábyrgð á þeim á neina af fagráðherranefndum Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfsráðherrarnir ákváðu því að láta gera úttekt á þeim möguleika að stofna sérstaka tímabundna ráðherranefnd um aðlögunarmál. Þetta varð mögulegt í kjölfar þess nútímavæðingarstarfs sem ráðherrarnir tóku einnig ákvörðun um á fundinum. Aðlögunaráætluninni verður ýtt úr vör með óformlegum ráðherrafundi í lok þessa árs. Ákveðið var að leggja áherslu á aðlögunarmál í apríl síðastliðnum. Starfið getur hafist nú þegar, þökk sé umtalsverðum breytingum á forgangsröðun í fjárhagsáætlun ráðherranefndarinnar fyrir árið 2016.

Það má segja að aðlögunaráætlunin sé eitt af mikilvægustu sviðum norræns samstarfs eins og er.

„Það hefur reynst okkur áskorun að finna fjármagn og leggja grunninn að svo umfangsmikilli áætlun á ekki lengri tíma,“ segir Høybråten framkvæmdastjóri. „En einmitt þannig á Norræna ráðherranefndin að starfa. Starf okkar tekur mið af þeim kröfum sem fylgja pólitísku starfi í nútímasamfélagi,“ bendir hann á.