Fjörugar umræður um Palestínu í Norðurlandaráði

28.10.14 | Fréttir
Høgni Hoydal
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Í hversu miklum mæli á Norðurlandaráð að taka afstöðu og beita sér í utanríkismálum og hvernig á að meta annars vegar ábyrgð Norðurlanda í heimsmálum og hins vegar norrænt notagildi fyrir Norðurlandabúa? Þingmannatillagan um að fleiri norræn ríki viðurkenni sjálfstæði Palestínu leiddi til klukkustundar langrar umræðu í Norðurlandaráði á þriðjudaginn.

– Að gert sé upp á milli fólks vegna kynþáttar þess er því miður ekkert nýtt í heiminum. Við höfum séð það áður. Við sáum það í Suður-Afríku á tímum apartheid-stjórnarinnar og við sáum það líka á tímum kynþáttaaðskilnaðar í suðurríkjum Bandaríkjanna. Þetta er kynþáttastefna sem var jafn ámælisverð þá eins og hún er nú, sagði Håkan Svenneling, þingmaður sænska Vinstriflokksins, þegar hann mælti fyrir þingmannatillögunni fyrir hönd Flokkahóps vinstrisósíalista og grænna (VSG) í Norðurlandaráði.

Í tillögunni hvetur VSG-hópurinn meðlimi Norðurlandaráðs og allar ríkisstjórnir og þing Norðurlanda til að viðurkenna Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki.

– Við hvetjum líka Ísraelsmenn og Palestínumenn til að vinna að friði og sátt með hjálp Norðurlanda og til þess að gerðir verðir friðarsamningar sem byggja á alþjóðarétti og samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem leiði til gagnkvæmrar viðurkenningar Ísraelsríkis og Palestínuríkis, sagði Svenneling. 

Tillagan mætti harðri andstöðu frá Flokkahópi hægrimanna og flokkahópnum Norrænt frelsi.

– Þetta framtak er skólabókardæmi um það hvernig Norðurlandaráð getur grafið algerlega undan stöðu sinni. Hættan er sú við notum þann takmarkaða tíma sem við höfum saman til að ræða um mál sem við getum alls ekki haft áhrif á, sagði Michael Tetzschner, þingmaður norska Hægriflokksins.

Høgni Hoydal, þingmaður færeyska Þjóðveldisflokksins og formaður VSG-hópsins, setti spurningarmerki við þá gagnrýni Tetzschners að Norðurlandaráð ætti ekki að fjalla um utanríkismál.

– Að mínu áliti er það einmitt þetta sem við höfum verið að reyna að gera um langt skeið, að segja að við getum fjallað um þessi málefni. Við leggjum engar skyldur á herðar þingmönnum, en við getum fjallað um málin og beint þeim til þinga okkar og ríkisstjórna, sagði Hoydal.

Juho Eerola, þingmaður flokks Sannfinna og formaður flokkahópsins Norrænt frelsi, lagði áherslu á rétt hvers norræns lands til að reka eigin utanríkisstefnu. Satu Haapanen, þingmaður Græningja í Finnlandi og meðlimur Flokkahóps miðjumanna, svaraði því til að Norðurlandaráð bæði gæti og ætti að láta í sér heyra um það sem aflaga fer í heiminum.

Þingmannatillagan um viðurkenningu sjálfstæðis Palestínu fer næst til meðferðar í forsætisnefnd Norðurlandaráðs.