Mannauðurinn er mikilvægasta auðlind norðurskautssvæðisins

21.01.14 | Fréttir
− Norrænt samstarf á að skapa norrænan virðisauka með áherslu á íbúa norðurskautssvæðisins, sagði Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, á ráðstefnunni Arctic Frontiers sem haldin er í Tromsö dagana 19.-24. janúar 2014. Erkki Tuomioja utanríkisráðherra Finnlands lagði áherslu á samstarfsáætlun Norðurlandanna um norðurskautssvæðið og ítrekaði mikilvægi norðursvæða.

Ráðstefnan Arctic Frontiers er nú haldin í áttunda sinn. Rúmlega 1.050 áhugasamir þátttakendur um norðursvæðin, funda í háskólanum í Tromsö. Í þetta sinn er þema ráðstefnunnar Arctic Frontiers, íbúar á norðurslóðum, heilbrigðis- og umhverfismál.

 „Mikilvægasta auðlind norðurskautssvæðisins eru þeir sem þar búa og þekkingin sem þeir búa yfir“, sögðu Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og Bent Høie, heilbrigðis- og umönnunarráðherra Noregs.

Norðurheimskautssamstarf á Norðurlöndunum

 „Norræn reynsla sýnir nauðsyn þess að sameina samkeppnishæfni og almenna velferð. Norræna velferðarlíkanið er sá rammi sem norrænu ríkin fimm vinna innan og við verðum að leggja sérstaka áherslu á norðursvæðin“, sagði Erkki Tuomioja á ráðstefnunni.

Tuomioja benti á samstarfsáætlun norrænu ríkjanna um norðurskautssvæðin þar sem «lögð er áhersla á íbúana». Norræna ráðherranefndin hefur með samstarfsáætlun sinni um norðurskautssvæðin lagt áherslu á íbúa norðurskautssvæðisins, sérstaklega frumbyggja. NMR hefur fjármagnað fjölda verkefna og aðgerða, með alls u.þ.b. 140 milljónum norskra króna, þar á meðal fjölda verkefna Norðurskautsráðsins.