Skattamál í brennidepli hjá Stjórnsýsluhindranaráðinu á árinu 2024

26.02.24 | Fréttir
Anders Ahnlid leder Gränshinderrådets kickoff i Köpenhamn februari 2024.

Anders Ahnlid leder Gränshinderrådets kickoff i Köpenhamn februari 2024.

Photographer
Lisa Wikstrand / Norden.org

Stjórnsýsluhindranaráðið hélt fyrsta fund sinn í Kaupmannahöfn 22.–23. febrúar 2024 undir stjórn formannsins Anders Ahnlid.

Einfaldari norrænn skattasamningur er ofarlega á forgangslista Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2024. Stjórnsýsluhindranaráðið ákvað helstu viðfangsefni sín á upphafsfundi sínum í Kaupmannahöfn 22.–23. febrúar.

Í fyrra óskaði Stjórnsýsluhindranaráðið eftir skýrslu og er helsta niðurstaða hennar að einfalda verði norræna skattasamninga eigi að takast að bæta frjálsa för vinnuafls. Vinnan við að afla tillögum skýrslunnar stuðnings hjá ríkisstjórnum landanna verður eitt mikilvægasta verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins á þessu ári.

„Hlutverk stjórnsýsluhindranaráðsins er að styrkja frjálsa för bæði fyrirtækja og einstaklinga á Norðurlöndum.Mikilvægur hluti þeirrar vinnu felst í því að skapa norrænan vinnumarkað með eins fáum skrifræðishindrunum og kostur er, bæði fyrir atvinnurekendur og launafólk. Í skýrslunni um skattamálin er að finna beinar tillögur að því hvernig hægt er að gera það og því er mikilvægt að við höldum áfram að vinna að því að tillögurnar verði að veruleika,“ segir Anders Ahnlid, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2024.

Vinnan í tengslum við skýrsluna er einnig mikilvæg þegar kemur að því að uppfylla markmið hinnar norrænu framtíðarsýnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.

En skattamálin eru ekki það eina sem verður á dagskrá í ár. Önnur mikilvæg málefni eru norrænt samstarf í tengslum við skráningar í þjóðskrá, stafvæðingu, lífeyrismál og tölfræði á landamærasvæðum.

Svíþjóð setur frjálsa för á oddinn

Jessika Roswall, ESB-ráðherra Svíþjóðar, sem jafnframt ber ábyrgð á málefnum Norðurlanda, tók einnig þátt í fundinum. Hún er formaður norrænu samstarfsráðherranna árið 2024 og á fundinum gerði hún meðal annars grein fyrir formennskuáætlun Svíþjóðar.

Stjórnsýsluhindranaráðið veitir því athygli að Svíþjóð leggur mikla áherslu á vinnuna að frjálsri för á Norðurlöndum 2024.

„Við fögnum því mjög að Svíþjóð setji þetta málefni á oddinn í formennskutíð sinni og vilji setja aukinn kraft í það. Það þurfum við að nýta okkur,“ segir Anders Ahnlid.

Árið 2024 verður einnig áhugavert að öðru leyti fyrir Stjórnsýsluhindranaráðið og almennt fyrir vinnuna að afnámi stjórnsýsluhindrana. Meðal annars verður gerð úttekt á starfinu í heild sinni með það fyrir augum að gera það skilvirkara í framtíðinni. Niðurstöðurnar verða meðal annars notaðar til þess að skoða Stjórnsýsluhindranaráðið og umboð þess sem ráðið og löndin vinna eftir.