Síðustu forvöð: Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2024

19.04.24 | Fréttir
miljøpris 2024 bæredygtig byggeri

Ted Lindroos / Midjourney AI genererad bild

Ljósmyndari
Ted Lindroos / Midjourney AI genererad bild
Ábendingar um framúrskarandi verkefni óskast! Veist þú um einhvern sem ætti að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs? Þá eru nú síðustu forvöð – frestur til að skila tillögum að tilnefningum rennur út þriðjudaginn 30. apríl.

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 verða veitt aðila á Norðurlöndum sem lagt hefur eitthvað sérstakt af mörkum til þess að stuðla að sjálfbærni í byggingarstarfsemi og er sérstök áhersla lögð á aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkítektúr. Verðlaunaféð nemur 300 þúsundum danskra króna.

Hver sem er getur sent inn tillögur að tilnefningum. Veist þú um norrænt fyrirtæki, samtök eða einstakling sem verðskuldar að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár? Sendu þá inn tillögu í síðasta lagi 30. apríl.

Rekja má um 40 prósent allrar kolefnislosunar í heiminum til byggingarstarfsemi. Þetta leiðir til ósjálfbærni á tímum þegar þörf er á því að byggja meira.

Ef við ætlum okkur að ná loftslags- og umhverfismarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og um leið stuðla að félags- og umhverfislegri sjálfbærni nægir ekki að reisa bara nýjar og umhverfisvænar byggingar. Það er ekki nóg að viðhalda ástandinu í umhverfismálum. Við þurfum líka að draga úr losun, endurnýta efni og nota endurnýjanlegar auðlindir. Grundvallarbreyting þarf að verða á nálgun okkar til þess að viðskiptalíkön og regluverk styðji við breytingarnar. Ýta þarf undir aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkítektúr.

Úr lýsingu verðlaunanefndarinnar á þema ársins 2024

Um umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Umhverfisverðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Þau eru veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Framlag hins tilnefnda verður að hafa norrænt sjónarhorn.

Verðlaunahafinn verður tilkynntur á þingi Norðurlandaráðs á Íslandi í október.

 

Fyrri verðlaunahafar:

2023 Renewcell (Svíþjóð)

2022 Sveitarfélagið Mariehamn fyrir Nabbens våtmark (Álandseyjar)

2021 Den Store Klimadatabase frá hugsmiðjunni Concito (Danmörk)

2020 Jens-Kjeld Jensen (Færeyjar)