Norðurlandaráð: Norðurlönd þurfa sameiginlega áætlun varðandi Eystrasaltið

17.04.24 | Fréttir
Rebecka Le Moine
Ljósmyndari
Gwenael Akira Helmsdal Carre

Rebecka Le Moine færir rök fyrir tillögunni sem norræna sjálfbærninefndin lagði fram.

Eystrasaltið er eitt mengaðasta hafsvæði í heimi. Þegar við það bætast loftslagsvandinn auk ágengra tegunda, ofveiða og aukinnar umferðar blasir við mikill umhverfisvandi á á svæðinu. Að mati Norðurlandaráðs þurfa Norðurlönd að axla aukna ábyrgð.

Norðurlandaráð hyggst mælast til þess við Norrænu ráðherranefndina að unnin verði sameiginleg áætlun um heilbrigt Eystrasalt. Þetta var samþykkt á vorþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í Færeyjum í síðustu viku.

Norðurlandaráð leggur til að norræn áætlun verði byggð á Baltic Sea Action Plan (BSAP) frá 2021 en að settur verði aukinn kraftur og metnaður í verkefnið.

„Norrænu löndin eiga að taka frumkvæðið og tryggja að núverandi áætlunum verði fylgt eftir. Það er löngu tímabært. Baltic Sea Action Plan var uppfært árið 2021 og aðgerðunum í áætluninni á að vera lokið árið 2030. Það er erfitt að sjá fyrir sér að það muni takast ef við grípum ekki til einhverra aðgerða. Þess vegna leggjum við þetta til núna og vonum að ráðherrarnir leggi við hlustir,“ segir Rebecka Le Moine, meðlimur í norrænu sjálfbærninefndinni.

Á meðal þess sem Norðurlandaráð kallar eftir er samræming á löggjöf um málefni sjávar og að Norðurlönd taki sameiginlega afstöðu á vettvangi ESB og í málefnum sem varða Eystrasaltið.

„Eystrasaltið er enn eitt mengaðasta hafsvæði í heimi og það þrátt fyrir að við höfum beint sjónum okkar að því áratugum saman og margar svæðisbundnar stefnuáætlanir hafi litið dagsins ljós. Það er dapurleg staðreynd og ég er mjög ánægð með að Norðurlandaráð standi saman að því að krefjast þess af norrænu ríkisstjórnunum að gripið verði til aðgerða,“ segir Le Moine.

Skoða þarf Skagerak og Oslóarfjörð

Þær ógnir sem helst steðja að Eystrasaltinu eru ofauðgun, eyðilegging búsvæða, loftslagsbreytingar, efnamengun, úrgangur og ofveiðar. Og þetta á ekki aðeins við um Eystrasaltið. Margt af því sem við sjáum í Eystrasaltinu má einnig sjá í Skagerak og Oslóarfirði. Ola Elvestuen, varaformaður norrænu sjálfbærninefndarinnar: „Þess vegna er það einnig mikilvægur liður í tillögunni að skoðaðar verði aðgerðir sem ráðast verður í á þessum svæðum.“

 

Norræna sjálfbærninefndin lagði tillöguna fram og var hún samþykkt á vorþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í Færeyjum þann 9. apríl 2024.