Sykurskattur, niðurgreiðslur eða merkingar? Ný skýrsla vísar veginn að nýjum fæðuvenjum

14.03.24 | Fréttir
Inköpskorg
Photographer
Jens Dresling/Ritzau Scanpix
Í dag kemur út ný skýrsla sem fjallar um hvað til þarf til þess að breyta matarvenjum í norrænu löndunum. Skýrslan sýnir að skattar og niðurgreiðslur eru mikilvæg pólitísk verkfæri og einnig er lagt til samstarf í tengslum við merkingar og regluverk um markaðssetningu til þess að auðvelda Norðurlandabúum að velja loftslagsvænt og heilnæmt mataræði.

Skýrslan Policy tools for sustainable and healthy eating - Enabling a food transition in the Nordic countries var unnin í tengslum við Norrænar næringarráðleggingar 2023 (NNR2023) sem kynntar voru í fyrra. Það var í fyrsta sinn sem norrænu næringarráðleggingarnar innihéldu gagnreyndar ráðleggingar sem vörðuðu bæði heilsufarslega og umhverfislega þætti og vakti það mikla athygli. 

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að bæði loftslagið og lýðheilsa eiga undir högg að sækja og í nýju skýrslunni er fjallað um það til hvaða beinu aðgerða stjórnvöld geta gripið til að skapa forsendur fyrir almenning til að velja sjálfbærari og heilnæmari kosti.

„Að breyta matarvenjum okkar til hins betra er árangursríkasta loftslags- og lýðheilsuaðgerðin sem við getum gripið til á Norðurlöndum. Þessi nýja skýrsla vísar okkur veginn og gefur okkur verkfæri fyrir þær djörfu ákvarðanir sem þarf að taka og umræðuna sem þarf að eiga til þess að einfalda almenningi að lifa sjálfbæru og heilbrigðu lífi,“ segir Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Að breyta matarvenjum okkar til hins betra er árangursríkasta loftslags- og lýðheilsuaðgerðin sem við getum gripið til á Norðurlöndum. Þessi nýja skýrsla vísar okkur veginn og gefur okkur verkfæri fyrir þær djörfu ákvarðanir sem þarf að taka og umræðuna sem þarf að eiga til þess að einfalda almenningi að lifa sjálfbæru og heilbrigðu lífi.

Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Sykurskattur, kjötskattur, niðurgreiðslur og merkingar – hvað fær okkur til þess að borða rétt?

Skýrslan sýnir hvernig norrænu löndin geta með ólíkum hætti eflt stefnu sína til að stuðla að bættri matvælaneyslu og skapa umhverfi sem gerir almenningi kleift að neyta sjálfbærra og hollra matvæla. Mismunandi leiðir fyrir stjórnvöld til þess að ýta undir breytta hegðun voru skoðaðar, allt frá ábendingum (nudging) til reglusetningar. 


Lagðar eru til blandaðar aðgerðir þar sem einnig er tekið tillit til þess að ýmsir matartengdir, persónulegir og félags- og umhverfislegir þættir hafa áhrif á hegðun fólks:

„Ef við viljum að Norðurlandabúar temji sér breyttar matarvenjur er mikilvægt að skoða blöndu stjórntækja og hvata. Skattar og niðurgreiðslur gegna mikilvægu hlutverki en þeim verða að fylgja aðrar leiðir á borð við upplýsingaherferðir og hvetjandi aðgerðir,“ segir Leneisja Jungsberg, einn höfunda skýrslunnar.

Fimm tillögur að aðgerðum stjórnvalda til þess að hvetja til sjálfbærrar matvælaneyslu:

Við allar aðgerðir til að stuðla að bættum matvælakerfum
verður að hafa í huga að það eru engar einfaldar lausnir til. Það þarf að beita mörgum aðgerðum samtímis til þess að búa til sjálfbær, heilnæm og viðnámsþolin matvælakerfi. 


Koma á kjöt- og sykurskatti og niðurgreiðslum á grænmeti og ávöxtum 
Rannsóknir sýna að stýritæki á borð við skatta og niðurgreiðslur hafi áhrif á kauphegðun. Til dæmis gæti verið um að ræða skatt á tilteknar tegundir af kjöti, vörugjöld á drykki sem innihalda viðbættan sykur eða niðurgreiðslu á grænmeti. Ef norrænu löndin taka höndum saman um beitingu slíkra stjórntækja getur það aukið sátt um þau á meðal almennings en það getur oft verið áskorun.

Öflug opinber innkaup og menntun 
Norðurlönd eru í einstakri aðstöðu til að nýta opinberar máltíðir til að fá neytendur til þess að taka einnig betri ákvarðanir í daglegu lífi sínu. Stýra ber opinberum máltíðum þannig að þær stuðli betur að sjálfbærum og heilnæmum kostum í samræmi við NNR2023.

Koma á norrænum matvælamerkingum 
Merkingar á vörum hafa áhrif á hegðun kaupenda. Á Norðurlöndum hefur mjög góður árangur náðst með notkun Skráargatsins sem þróað var í Svíþjóð til þess að ýta undir heilnæma kosti. Skráargatið hefur verið þróað frekar og innleitt í bæði Noregi og Svíþjóð. Danmörk vinnur nú að loftslagsmerkingu fyrir matvæli sem við getum byggt saman á og breitt út á Norðurlöndum.

Semja samnorrænar leiðbeiningar til að draga úr markaðssetningu óheilsusamra matvæla 
Mörg af stóru matvælafyrirtækjunum eru með starfsemi í öllum norrænu löndunum og samræming á reglum kæmi sér vel fyrir þau. Það væri því skynsamlegt fyrir Norðurlönd að vinna saman að því að útfæra hertari viðmið og löggjöf til þess að draga úr markaðssetningu á óhollum matvælum. Í dag er löggjöfin á þessu sviði veik og nauðsynlegt er að spýta í lófana til þess að draga úr þeim auglýsingum sem hvetja okkur, og ekki síst börn og ungt fólk, til þess að neyta ósjálfbærra og óhollra vara.

Það var Norræna rannsóknastofnunin um byggðaþróun, Nordregio, sem tók skýrsluna saman fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Fylgist með kynningu skýrslunnar í beinni útsendingu

Skýrslan verður kynnt í Stokkhólmi þann 14. mars og verður kynningin einnig send út beint á netinu kl. 8.15-10.15.

Skýrslan er hluti verkefnisins Sjálfbær og heilbrigð fæðukerfi sem hluti áætlunarinnar um heilbriðgan lífsstíl.

Contact information