Norðurlandaráð: Stemmum stigu við plastögnum í snyrtivörum

29.06.16 | Fréttir
Nógu slæmt er að plastúrgangur brotni niður í mengandi plastagnir í sjónum, en það að nota plastagnir í snyrtivörur er hreint og beint galið. Þetta segir sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs, sem vill að hætt verði að nota plastagnir sem innihaldsefni í snyrtivörum.

„Komi frumkvæðið að því að taka fyrir notkun plastagna í snyrtivörur ekki úr snyrtivöruiðnaðinum, þá verður það að gerast með lagasetningu. Best væri ef það gerðist á vettvangi ESB, en annars verða Norðurlöndin að vísa veginn,“ segir Hanna Kosonen (C), formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs, sem fundar um þessar mundir í Vestmannaeyjum.

Aðeins 14 prósent þess plasts sem notað er í heiminum í dag er endurunnið, og því er spáð að innan skamms verði meira af plasti en fiski í höfum heimsins. World Economic Forum hefur kallað eftir alþjóðlegri bókun um notkun á plasti og ráðstöfun plastúrgangs.

Undanfarin ár hefur Norræna ráðherranefndin látið gera fjölda víðtækra athugana á plastúrgangi, en nú verða ríkisstjórnir Norðurlandanna og ráðherranefndin að fylgja því góða undirbúningsstarfi eftir og grípa til aðgerða gegn þeim umhverfisvandamálum sem tengjast plasti og plastúrgangi.

„Sem betur fer er atvinnulífið á okkar bandi í baráttunni gegn plastúrgangi í sjó. Einnig tel ég að almenningur á Norðurlöndum sé reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til að stemma stigu við því umhverfisslysi sem hljótast mun af ef við grípum ekki til aðgerða nú þegar,“ segir Karin Gaardsted (S), varaformaður norrænu sjálfbærninefndarinnar. 

Möguleikar í norrænu samstarfi um endurvinnslu

Plastnotkun færist stöðugt í aukana. Aftur á móti virðist endurvinnsla plastúrgangs ekki hafa aukist hlutfallslega undanfarið. Fyrir því eru margar ástæður, m.a. það að plast er ekki einsleitt efni, að nýtt plast er tiltölulega ódýrt og að skilakerfi fyrir plastefni er ábótavant. 

„Plastúrgangur er verðmæt auðlind, og við vitum að samlegðaráhrif eru fyrir hendi í norrænu samstarfi á sviðinu. Undanfarin ár hefur Norræna ráðherranefndin látið gera fjölda víðtækra athugana á plastúrgangi, en nú verða ríkisstjórnir Norðurlandanna og ráðherranefndin að fylgja því góða undirbúningsstarfi eftir og grípa til aðgerða gegn þeim umhverfisvandamálum sem tengjast plasti og plastúrgangi,“ segir Elín Hirst (S), fulltrúi í norrænu sjálfbærninefndinni. 

Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs fundar í Vestmannaeyjum dagana 27.–29. júní. Á dagskránni er stefnan í loftslagsmálum, aðgerðir til að tryggja daglegt líf án eiturefna á Norðurlöndum, möguleikar Norðurlanda til að styðja við hin nýju sjálfbærnimarkmið SÞ og stjórnun sameiginlegra fiskistofna í Norður-Atlantshafi.