Ný frumkvæði á nýju ári í Norðurlandaráði

16.01.14 | Fréttir
Karin Åström
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Janúarfundir í Norðurlandaráði eru á næsta leiti en þá verður dagskrá þingmannasamstarfsins á árinu 2014 ákveðin. Þingmennirnir hyggjast efla hlutverk Norðurlanda í Evrópu á árinu. Meðal mála á dagskrá eru sjálfbær þróun, velferð og vinnumarkaður.

Fundað verður í Kaupmannahöfn dagana 21. og 22. janúar en fundina sækja þingfulltrúar frá öllum Norðurlöndunum, þar á meðal Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Pólitísk mál eru að mestu afgreidd í fimm fagnefndum Norðurlandaráðs en þær eru umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, velferðarnefnd, menningar- og menntamálanefnd og borgara- og neytendanefnd.

Norðurlöndin þátttakendur í Evrópu

Svíar tóku við formennsku af Norðmönnum um áramótin. Metnaður Svía á formennskuárinu er að auka afskipti Norðurlanda af málefnum Evrópu. Í formennskuáætlun er lögð áhersla á þrjú svið en þau eru: Vinnumarkaður Norðurlanda, 200 ára friður milli Norðurlandanna og sjálfbær nýting náttúruauðlinda.

Lesið nánar á slóðinni: Formennska Svíþjóðar í Norðurlandaráði 2014

Sjálfbær þróun

Á fundunum í janúar munu margar nefndir Norðurlandaráðs leggja áherslu á góða stjórnun náttúruauðlinda.  Umhverfis- og náttúruauðlindanefndin afgreiðir nefndartillögu um tækni til vatnshreinsunar en þar er stuðst við nýjar upplýsingar sem benda til þess að hagkvæmara sé að hreinsa vatn en að sporna gegn losun í landbúnaði.  Önnur tillaga liggur fyrir um að Norðurlöndin myndi brú milli iðnríkja og þróunarríkja í alþjóðlegum loftslagsviðræðum.

Nefndin vill efla samvinnu um samgöngumál og er samstarf þegar hafið við efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndirnar vinna áfram saman að tillögum um endurnýtingu vatns í fiskeldi og snjallar rafveitulausnir. Á borði efnahags- og viðskiptanefndar er einnig að finna viðmið fyrir sjálfbæran námurekstur, yfirlýsingu um norræna tísku og sameiginleg innkaup opinberra stofnana.

Velferð og stjórnsýsluhindranir

Meginþema velferðarnefndar á árinu 2014 er velferðarþjónusta í dreifbýli á Norðurlöndum og að allir norrænir borgarar hafi jöfn tækifæri og jafnan rétt til heilbrigðis- og félagsþjónustu óháð búsetu. Þá fundar nefndin með Bo Könberg en ríkisstjórnir Norðurlandanna fólu honum að kanna hvort efla beri norrænt samstarf um heilbrigðismál.

Borgara- og neytendanefnd heldur áfram að leita pólitískrar lausnar fyrir norska lífeyrisþega í Svíþjóð sem telja sig hafa fengið rangar upplýsingar hjá sænskum yfirvöldum um norrænar tvísköttunarreglur. Nefndin ætlar einnig að kanna hvort Norðurlöndin geti tekið saman höndum um að tryggja mannréttindi verkafólks sem vinnur í vefnaðarverksmiðjum í þróunarlöndum fyrir norræn fyrirtæki.