Skráning blaðamanna hafin á þing Norðurlandaráðs í Helsinki

13.09.17 | Fréttir
Eduskunta
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Skráning blaðamanna er hafin á 69. þing Norðurlandaráðs sem haldið verður í Helsinki 31. október– 2. nóvember 2017. Þingið er stærsti stjórnmálavettvangur ársins þar sem norrænir þingmenn, forsætisráðherrar, aðrir ráðherrar og forystufólk stjórnarandstöðunnar kemur saman.

Meðal mikilvægra mála sem þingað verður um má nefna Norðurlönd sem samþættasta svæði í heimi, afnám stjórnsýsluhindrana og norrænt traust. Mál þessi verða rædd á leiðtogafundi þingmanna Norðurlandaráðs og norrænu forsætisráðherranna sem haldinn verður 31. október.

Viðburður um norrænt orkumálasamstarf verður í tengslum við þingið mánudaginn 30. október. Þar verður fjallað um nýja skýrslu um orkumál eftir Jorma Ollila, fyrrum framkvæmdastjóra Nokia og hvernig samstarfið eigi að þróast á næstu árum. Viðburðurinn er opinn fréttafólki.

Ýmis pólitísk mál verða á dagskrá 69. þings Norðurlandaráðs, þar á meðal aðlögunarmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Alþjóðamál líðandi stundar og varnar- og öryggismál verða rædd 1. nóvember þegar utanríkis- og varnarmálaráðherrarnir flytja skýrslu sína fyrir þingheimi Norðurlandaráðs. Forsætisráðherrar Norðurlandanna funda með kollegum sínum frá Eystrasaltsríkjunum í tengslum við þingið.

Þingið fer fram í nýuppgerðum húsakynnum finnska þjóðþingsins í Helsinki.

Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs

Miðvikudaginn 1. nóvember verður hulunni svipt af því hver hreppa verðlaun Norðurlandaráðs. Verðlaunaafhendingin fer fram í Finlandiahúsinu. Að afhendingu lokinn verður blaðamannafundur og myndataka.

Fréttamenn sem vilja vera viðstaddir þing Norðurlandaráðs, verðlaunaafhendinguna og orkumálaviðburðinn þurfa að skrá sig í síðasta lagi 27. október 2017 kl. 14. Skráning krefst blaðamannaskírteinis. Skráningin gildir einnig um blaðamannafundi ráðherranna sem haldnir verða í tengslum við þingið.

Norðurlandaráð er þing opinbers samstarfs Norðurlanda. Á árlegu haustþingi fer fram pólitísk umræða milli Norðurlandaráðs og fulltrúa ríkisstjórnanna í Norrænu ráðherranefndinni. Hægt er að fylgjast með þinginu á Twitter undir kassamerkjunum #nrsession og #nrpol