Skráning á þing Norðurlandaráðs hafin

16.09.16 | Fréttir
Nordiska flaggor på Christiansborg
Photographer
Søren Svendsen/Ministerråd
Hafin er skráning blaðamanna á 68. þing Norðurlandaráðs sem haldið verður í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember 2016. Þingið er mikilvægasti norræni stjórnarmálaviðburður ársins. Þar koma saman þingmenn, forsætisráðherrar, leiðtogar stjórnarandstöðunnar og fagráðherrar frá öllum Norðurlöndunum.

Eitt af helstu viðfangsefnum þingsins að þessu sinni eru hrattræn markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu unnið að því að ná þeim. Markmið Sameinuðu þjóðanna verða meðal annars rædd á leiðtogafundi þingmannanna í Norðurlandaráði og forsætisráðherra Norðurlanda sem haldinn verður 1. nóvember.

Í tengslum við þingið verður jafnframt haldinn þemadagur um sjálfbærnimarkmiðin í miðstöð Sameinuðu þjóðanna (FN Byen) í Kaupmannahöfn 31. október. Fjölmiðlar hafa aðgang að viðburðinum.

Ýmis pólitísk málefni sem eru ofarlega á baugi verða til umræðu á Norðurlandaráðsþingi, meðal annars aðlögun flóttamanna og vinnumarkaðsmál, en þau verða rædd á grundvelli úttektar Poul Nielsons, fyrrum ráðherra í dönsku ríkisstjórninni, á atvinnulífi framtíðarinnar á Norðurlöndum. Alþjóðamál sem eru á döfinni og viðfangsefni tengd varnar- og öryggismálum verða til umræðu 2. nóvember þegar utanríkis- og varnarmálaráðherrarnir gefa þingmönnum Norðurlandaráðs skýrslu.

Í tengslum við þingið funda forsætisráðherrar Norðurlanda jafnframt með ráðherrum Eystrasaltsríkjanna og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Ennfremur munu samstarfsráðherrar Norðurlanda funda með forsætisnefndinni. Ýmsir fagráðherrar funda jafnframt meðan á þinginu stendur.

Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs

Tilkynnt verður um handhafa verðlauna Norðurlandaráðs þriðjudagskvöldið 1. nóvember. Verðlaunaafhendingin fer fram í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins (Danmarks Radios Koncerthus) Eftir verðlaunaafhendinguna verður haldinn blaðamannafundur og tækifæri verður til myndatöku.

Blaðamenn sem ætla að fylgjast með Norðurlandaráðsþingi og verðlaunaafhendingunni auk viðburðarins í miðstöð Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn þurfa að skrá sig í síðasta lagi 28. október. Framvísa þarf gildu blaðamannaskírteini. Skráning gildir einnig fyrir blaðamannafundi ráðherra sem haldnir verða í tengslum við þingið.

Norðurlandaráð hefur bókað nokkurn fjölda hótelherbergja fyrirfram fyrir blaðamenn. Þeir sem vilja nýta sér þennan möguleika geta haft samband við Birgitte Haj deildarritara. Netfang hennar birhaj@norden.org og símanúmer +45 60 39 42 07. Norðurlandaráð greiðir ekki fyrir hótelherbergin.

Norðurlandaráð er þing opinbers samstarfs Norðurlanda. Á árlegu haustþingi fer fram pólitísk umræða milli Norðurlandaráðs og fulltrúa ríkisstjórnanna í Norrænu ráðherranefndinni. Hægt er að fylgjast með þinginu á Twitter undir kassamerkjunum #nrsession og #nrpol