Ráðherrar frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum: Stöndum vörð um menningu og menningararf á hættutímum

03.05.24 | Fréttir
Nordic-Baltic declaration
Ljósmyndari
Magnus Liljegren/Regeringskansliet
Brýn þörf er á því setja meiri kraft í undirbúning og gerð viðbragðsáætlana varðandi verndun menningarfs og menningarstarfsemi þegar viðbúnaðarstig er aukið og á stríðstímum að mati norrænna og baltneskra ráðherra menningarmála. Í sameiginlegri viljayfirlýsingu heita þeir nánara samstarfi til þess að mæta auknum áskorunum sem menningargeirinn stendur frammi fyrir.

Menning leikur mikilvægt hlutverk í lýðræðislegu og viðnámsþolnu samfélagi. Um þessar mundir, þegar mikil spenna ríkir í alþjóðamálum, vá steðjar að og stríð geisa í nálægum löndum, má sjá mörg dæmi þess að sótt sé að menningu og menningararfi með ýmsum hætti.

Í ljósi þessa töldu norrænir og baltneskir ráðherrar menningarmála mikilvægt að taka höndum saman á þessu sviði. 

„Það er mjög mikilvægt að vernda menningararfinn og viðhalda menningarstarfsemi á krísutímum, þegar viðbúnaðarstig hækkar eða á stríðstímum. Ástandið hefur ekki verið svona alvarlegt í mörg ár og þess vegna bauð ég kollegum mínum frá hinum norrænu löndunum og Eystrasaltsríkjunum til fundar til að skiptast á ráðum og miðla þekkingu um hvernig sinna má þessu verkefni og þróa áfram. Við höfum rætt möguleika á samstarfi til að efla viðbúnað innan menningargeirans þegar samfélög okkar glíma við stórar áskoranir“ segir Parisa Liljestrand, menningarmálaráðherra Svíþjóðar og formaður norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál.

Það er mjög mikilvægt að vernda menningararfinn og viðhalda menningarstarfsemi á krísutímum, þegar viðbúnaðarstig hækkar eða á stríðstímum.

Parisa Liljestrand, menningarmálaráðherra Svíþjóðar

Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í menningarmálum í brennidepli

Á fundinum skiptust ráðherrarnir á þekkingu og reynslu og ræddu tækifæri til frekara samstarfs varðandi viðbúnað í menningargeiranum ef upp kemur krísa, viðbúnaðarstig er hækkað eða til átaka kemur. 

„Á sögulegum fundi ráðherra menningarmála á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum í dag var rætt um menningararfinn á krísutímum. Staða heimsmálanna neyðir okkur til að leiða hugann að því hvernig við getum betur varið menningararfinn. Með miðlun reynslu og samtali okkar á milli getum við staðið betur vörð um menningu okkar“ segir Heidy Purg, menningarmálaráðherra Eistlands.

 

Agnese Logina, menningarmálaráðherra Lettlands ræðir einnig þörfina á viðbúnaði:

„Varðveisla menningararfsins verður að verða órjúfanlegur hluti þjóðaröryggis. Menningararfurinn er grundvallaratriði fyrir sjálfsmyndir þjóða okkar. Varðveisla hans og viðbúnaður er besta leiðin til að tryggja að menningararfur okkar standi af sér mismunandi ógnir.“

Sameiginleg viljayfirlýsing:

Til þess að undirstrika enn frekar mikilvægi viðbragðsáætlana og samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í menningarmálum undirrituðu ráðherrarnir sameiginlega viljayfirlýsingu þar sem áhersla er lögð á eftirfarandi:

  • að undirstrika mikilvægi menningarsamstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna;
    viðurkenna mikilvægi frjáls og blómlegs menningarlífs fyrir viðnámsþrótt og lýðræði;
  • að lýsa því yfir að efldur viðbúnaður sé forgangsmál í löndum okkar með það fyrir augum að vernda menningararf og
  • halda úti menningarstarfsemi ef upp koma krísur, aukið viðbúnaðarstig eða stríðsátök;
  • að leggja sérstaklega áherslu á mikilvægi þess að skiptast á þekkingu og reynslu af sérþekkingu landanna til þess að efla viðbúnað Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í menningarmálum; og
  • að fordæma harðlega áframhaldandi stríðsrekstur Rússlands gagnvart Úkraínu, sem er skýrt brot á alþjóðalögum, og vísvitandi árásir Rússlands á úkraínska borgara og borgaraleg skotmörk, þar með talin eyðilegging og tjón á menningarlegum, sögulegum og trúarlegum stöðum í Úkraínu og úkraínskum menningararfi.

Það var Svíþjóð sem stóð að fundi norrænu og baltnesku menningarmálaráðherranna í Stokkhólmi þann 3. maí í krafti formennsku sinnar í Norrænu ráðherranefndinni.