Stór mál á borði Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2023

03.05.24 | Fréttir
Siv Friðleifsdóttir.

Siv Friðleifsdóttir, ordförande för Gränshinderrådet 2023.

Ljósmyndari
Lisa Wikstrand / Norden.org

Siv Friðleifsdóttir gegndi formennsku í Stjórnsýsluhindranaráðinu 2023.

Á árinu 2023 vann norræna Stjórnsýsluhindranaráðið að afnámi 35 stjórnsýsluhindrana, það er að segja hindrana sem torvelda frjálsa för á milli norrænu landanna. Í ársskýrslu fyrir árið 2023 kemur fram að lokið hafi verið við vinnu við sex þessara hindrana. Markmiðið er að afnema fimm til átta stjórnsýsluhindranir ár hvert.

Hindranirnar sem afnumdar voru tengjast meðal annars greiðslum innan samsteypu yfir landamæri, skattlagningu launþega sem fengið hafa úthlutað verkefni frá starfsmannaleigu í öðru landi og notkun danskra fyrirtækjabifreiða í Svíþjóð. Ein þessara sex stjórnsýsluhindrana var afskrifuð sem óleysanleg.

Að sögn Sivjar Friðleifsdóttur, formanns Stjórnsýsluhindranaráðsins árið 2023, var árangur ráðsins í samræmi við markmið. Hún leggur þó áherslu á að þörf sé á samstarfi allra hlutaðeigandi til þess að hægt sé að afnema stjórnsýsluhindranirnar og að enn eigi eftir að leysa úr stærstu úrlausnarefnunum varðandi samþætt Norðurlönd.

Stjórnsýsluhindranaráðið ýtir á um afnám stjórnsýsluhindrana en ráðið sjálft getur ekki afnumið hindranir heldur þurfa stjórnvöld í löndunum að gera það.

„Ég get sagt að starf okkar, og norrænu ríkisstjórnanna, var í samræmi við starfsumboð okkar. Við sáum til þess að sex stjórnsýsluhindranir kláruðust á árinu. En við megum okkar lítils ein og sér. Árangur næst aðeins ef löndin leggja skýra áherslu á norræn mál og hafa pólitískan vilja til þess að leysa vandamálin,“ segir Siv Friðleifsdóttir.

Fimm málefnasvið

Auk beinna stjórnsýsluhindrana vann Stjórnsýsluhindranaráðið að fimm almennum málefnasviðum á árinu 2023. Öll tengjast þau úrlausnarefnum varðandi frjálsa för og samþættingu. Um er að ræða mál í tengslum við stafvæðingu, viðurkenningu starfsréttinda, talnagögn á landamærasvæðum, samstarf þjóðskráa og skattalegar stjórnsýsluhindranir.

Í tengslum við skattamál hafði Stjórnsýsluhindranaráðið til að mynda frumkvæði að því að unnin var skýrsla árið 2023. Niðurstaða skýrslunnar er að einfalda þurfi norræna tvísköttunarsamninginn og aðrar skattareglur ef við viljum auka hreyfanleika á milli landanna, bæði með tilliti til einstaklinga, fyrirtækja og verslunar.

Á árinu 2024 verður áfram mikil áhersla lögð á skattamál í vinnu Stjórnsýsluhindranaráðsins.

Kemur í veg fyrir hindranir

Stjórnsýsluhindranaráðið vinnur ekki aðeins að því að afnema stjórnsýsluhindranir á milli norrænu landanna heldur einnig að því að koma í veg fyrir að nýjar hindranir verði til. Þessi vinna fer að miklu leyti fram í samstarfi við Info Norden og upplýsingaþjónustur landamærasvæðanna sem daglega aðstoða íbúa og fyrirtæki á Norðurlöndum með vandamál sem á vegi þeirra verða þegar unnið er þvert á landamæri.

Þá er það einnig verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins að gera ríkisstjórnunum viðvart um vandamál tengd frjálsri för sem upp koma á krísutímum. Því skilaði Stjórnsýsluhindranaráðið á árinu 2023 inn umsögn um lagafrumvarp sænsku ríkisstjórnarinnar um tímabundið skilríkjaeftirlit á landamærum, meðal annars vegna þess að áhrifagreining fyrir landamærasvæðin liggur ekki fyrir.

Staðreyndir:

Stjórnsýsluhindranaráðið er óháð nefnd sem stjórnvöld landanna hafa falið að greiða fyrir fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.

Helsta verkefni Stjórnsýsluhindranaráðsins og er ýta á stjórnvöld og stjórnkerfi norrænu landanna með það fyrir augum að skapa skilyrði fyrir samþætt svæði þar sem íbúar geta á einfaldan hátt flust búferlum, stundað nám og hafið fyrirtækjarekstur þvert á landamæri.

Vinna ráðsins skiptir sköpum til þess að unnt sé að uppfylla framtíðarsýn norrænu forsætisráðherranna fyrir árið 2030 um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.