Stafræn röskun í lífhagkerfinu breytir hegðun neytenda

15.06.17 | Fréttir
Jaakko Kuusisaari at the Annual Forum of EUSBSR in Berlin 2017
Ljósmyndari
Liv la Cour Belling/norden.org
Stafræn umskipti í samfélaginu voru rædd út frá sjálfbærni á tveimur tengdum málþingum sem Norræna ráðherranefndin stóð fyrir á 8. ársþingi EUSBSR, áætlunar ESB fyrir Eystrasaltssvæðið, sem fram fór í Berlín 13. og 14. júní sl.

Annað málþingið fjallaði um sprotafyrirtæki og stafræn umskipti í dreifbýli, en hitt um stafræn umskipti og sóknarfæri í matvæla- og skógariðnaði. Í umræðunni var meðal annars spurt: Hvaða áhrif hefur stafræn tækni á fyrirtæki og markaði fyrir vörur lífhagkerfisins? Hvernig geta lífhagkerfi á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum skapað möguleika og sóknarfæri úr áhættum sem fylgja stafrænni röskun?

Tengja fyrirtæki við fólkið

Að sögn Jaakko Kuusisaari frá Tieto í Finnlandi er stafræna byltingin ekki aðeins gott viðskiptatækifæri heldur getur hún einnig greitt fyrir grænni byltingu í atvinnugreininni: „Lífhagkerfi og stafræn tækni eru eins og sköpuð hvort fyrir annað. Bæði eru nátengd gjörbreyttri neytendahegðun og því hvernig við lítum á heiminn. Saman munu þau skapa kappnóg af tækifærum og knýja grænan hagvöxt áfram.“

„Ný þróun í lífhagkerfinu hefur breytt skógariðnaðinum úr dæmigerðum sólsetursiðnaði í það sem ég myndi kalla sólarupprásariðnað. Fyrr en varir er fólk farið að prenta alls kyns neysluvörur í þrívídd, allt frá fötum til húsgagna – og allt úr timbri.“

Fyrr en varir er fólk farið að prenta alls kyns neysluvörur í þrívídd, allt frá fötum til húsgagna – og allt úr timbri.

Þá var rætt hvernig stafræn umskipti leiða til fjölgunar kvenna sem taka þátt í hefðbundnu lífhagkerfi. Skógar eru í auknum mæli í eigu borgarbúa. Sem dæmi má nefna að í Vermalandi í Svíþjóð eru konur 8 þúsund af 25 þúsund skógareigendum í héraðinu.

Í Lettlandi er verið að stofna ný sveitabýli til að verða við eftirspurn frá nýrri hreyfingu sem byggir á hugmyndafræði Beint frá býli. Davis Bojars útskýrir það nánar: „Hreyfingin Beint frá býli í Lettlandi byggir á þremur grunngildum; vináttu, sjálfboðastarfi og lífrænum landbúnaði. Við þurfum stafrænar lausnir til að gera bændum kleift að eiga bein samskipti við neytendur.“

 

Prentið matinn eftir pöntun

Hörður Kristinsson, formaður Norræna lífhagkerfisráðsins, benti á í erindi sínu að stafræn röskun væri þegar staðreynd: „Röskun er til staðar á öllum stigum matvælaiðnaðarins, frá bóndanum á borðið. Við verðum að vera reiðubúin og ráða ferðinni, í stað þess að berast með straumnum.“

Röskun er til staðar á öllum stigum matvælaiðnaðarins, frá bóndanum á borðið. Við verðum að vera reiðubúin og ráða ferðinni, í stað þess að berast með straumnum.

„Margir halda að stafræna tæknin muni valda atvinnuleysi. Það er ekki rétt, starfsgreinar eiga eftir að hverfa en á sama tíma skapast gífurlegur fjöldi nýrra starfa í nýjum atvinnugreinum, rétt eins og raunin varð í iðnbyltingunni á sínum tíma. Sumir verða undir en þeir sem eru best undirbúnir munu bera sigur úr býtum.“

„Framfarir í matvælatækni gætu hæglega þýtt að „kjöt- og mjólkurvörur“ úr plöntum verði jafn góðar og mun ódýrari en fyrirmyndin. Þetta mun valda röskun í landbúnaði og matvælakerfum eins og við þekkjum þau í dag.“

Stafræn tækni án aðgreiningar

Norræna ráðherranefndin leiðir samstarf um lífhagkerfi innan áætlunar ESB fyrir Eystrasaltssvæðið (EUSBSR). Í samstarfi við Nordregio og Þróunarvettvang Eystrasaltssvæðisins (Baltic Development Forum, BDF) stóð hún að tveimur fundum undir yfirskriftinni „Stafræn tækni án aðgreiningar“. 

Málstofan um lífhagkerfið var haldin í framhaldi af starfinu að sjálfbærni í norrænum lífhagkerfum sem kynnt var í skýrslu með 25 dæmum.