Thorvald Stoltenberg: Vill koma á fót varnar- og öryggismálanefnd

30.10.14 | Fréttir
Thorvald Stoltenberg
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
„Eitt tel ég víst: Ástandið í öryggismálum kallar á nánara samstarf Norðurlandanna um varnar- og öryggismál.“ Þannig hóf Thorvald Stoltenberg ávarp sitt til þingmanna Norðurlandaráðs á árlegu þingi ráðsins í Stokkhólmi. Að mati Stoltenbergs kallar ástandið á að komið verði á fót norrænni varnar- og öryggismálanefnd.

Eftir ávarp dagsins þarf enginn að velkjast í vafa um hvað Thorvald Stoltenberg þykir mest aðkallandi að Norðurlönd hafist að í ljósi ástandsins í öryggismálum:

„Það á að koma á fót norrænni varnar- og öryggismálanefnd sem getur haft yfirsýn yfir hvenær og hvernig skuli fylgja tillögum eftir. Ég sé fyrir mér að hver ríkisstjórn myndi tilnefna einn fulltrúa í nefndina. Nefndin þarf að vinna hratt og leggja sérlega áherslu á aðgerðir í norrænu samstarfi á sviði varnarmála. Einnig má nýta stafrænar lausnir til að tryggja öryggi.

Lesið ávarpið í heild hér:
Aðalframsaga Thorvalds Stoltenberg á þingi Norðurlandaráðs 2014

Varar við því að útmála Rússa sem óvini

Fimm árum eftir útkomu skýrslunnar sem kennd er við hann sjálfan segir Stoltenberg að orðræðan um Rússland valdi honum áhyggjum.

„Við getum ekki litið framhjá því sem ég vil nefna „herskáa stefnu Rússa“, ekki síst í lofthelgi Norður-Evrópu.  Hún er óæskileg. Hin mikla athygli sem kafbátaleitin í skerjagarðinum við Stokkhólm vakti hefur heldur ekki létt andrúmsloftið. Ég hef áhyggjur af því að einstaklingar skuli nota þetta ófremdarástand til að vekja upp orðræðuhefð kalda stríðsins,  Það er rangt að útmála aðrar þjóðir sem óvini.“

Ekkert öryggi án Rússlands

Thorvald Stoltenberg telur ekki unnt að koma á öryggi í Evrópu án Rússlands og heldur ekki í mótstöðu við Rússland. Stoltenberg segir ástandið í Evrópumálum í dag gerólíkt því sem við þekktum á tímum kalda stríðsins.

„Nú, þegar við teljum nauðsynlegt að ESB beiti refsiaðgerðum, er mikilvægt að við stöndum vörð um hið tvíhliða samstarf Norðurlanda. Við Norðurlandabúar búum að umræðuhefð sem við verðum að deila með Rússum.“

 

Um „Stoltenberg-skýrsluna“

Skýrslan inniheldur tillögur um ,„Norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála“ og var afhent norrænu utanríkisráðherrunum á einstökum fundi þeirra í Ósló þann 9. febrúar 2009. Ráðherrarnir höfðu falið Thorvald Stoltenberg að vinna skýrsluna.

„Það gleður mig að margar af tillögunum 13 í skýrslunni hafa komið til framkvæmda og að unnið er að öðrum. Sérlega mikilvægt að mínu mati er að tillagan um norræna samstöðuyfirlýsingu hafi verið samþykkt árið 2011.  Það lagði pólítískan grundvöll að áframhaldandi starfi,“ segir Stoltenberg.