Norðurlandaráð ræddi samstarf um öryggismál í Þórshöfn

09.04.24 | Fréttir
Photographer
Gwenaël Akira Helmsdal Carré
Mikilvægi sameiginlegra norrænna innviða, stöðlun hergagna, vilji ungs fólks til að verjast og baráttan gegn fjölþættum ógnum voru meðal þeirra málefna sem hvað mest voru rædd í málefnaumræðum um öryggi, frið og viðbúnað á Norður-Atlantshafi á þemaþingi Norðurlandaráðs í Færeyjum.

Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, sagði að þrýstingur væri vaxandi á Norður-Atlantshafi og norðurskautssvæðinu, meðal annars vegna nýtilkominnar alþjóðlegrar spennu og að fagna bæri að Finnland og Svíþjóð væru nú aðilar að NATO en staðan væri áfram óviss.

Örar breytingar

Louise Dedichen, aðstoðaraðmíráll og fulltrúi Noregs í hernaðarnefnd NATO, var gestafyrirlesari við umræðurnar. Hún hóf mál sitt á að greina frá því að meiri breytingar hefðu átt sér stað á sviði öryggismála á Norðurlöndum síðustu ár en áratugina á undan.

„Stækkun Nato er bein afleiðing innrásar Rússlands í Úkraínu. NATO heldur upp á 75 ára afmæli á þessu ári – og fyrir nokkrum árum hefðu líklega fáir talið að Svíþjóð og Finnland myndu taka þátt í þeim hátíðahöldum sem aðilar að bandalaginu.“

Dedichen telur að Norðurlöndin hafi kannski afvopnast meira síðustu áratugi en þau hefðu átt að gera og að við höfum litið á frelsi okkar sem sjálfgefið.

Innviðir gegna lykilhlutverki

Dedichen telur að innviðir séu meðal sviða þar sem sérstök tækifæri eru til aukins norræns samstarfs í þeim tilgangi að auðvelda flutninga milli landanna.

„Ég get ekki lagt nægilega ríka áherslu á að við erum sterkari saman. Við eigum langt í land á sviði innviða og þar eru einnig mörg ný tækifæri til samstarfs.“

Sömuleiðis mælir Dedichen með stöðlun hergagna og menntunar á sviði varnarmála. Hún telur einnig mikilvægt að Norðurlöndum takist að fá ungt fólk til að ganga til liðs við heri sína.

Fjölþættar ógnir og viðnámsþróttur

Í umræðunum ræddu margir þingfulltrúar hvernig bregðast ætti við fjölþættum ógnum, sem verða sífellt tíðari, ekki síst í Finnlandi sem hefur upp á síðkastið orðið fyrir blendingshernaði af hálfu Rússlands, meðal annars að flóttamenn eru sendir yfir landamæri þeirra. Þá var rætt um mikilvægi þess að eiga samstarf um viðnámsþrótt norrænu samfélaganna og almannavarnir.

„Það er afar mikilvægt að við aukum þekkingu okkar á öryggismálum,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir, forseti Norðurlandaráðs að lokum.