Þörf á auknu samstarfi í tengslum við sjálfbærar samgöngur

12.04.24 | Fréttir
Ljósmyndari
Gwenael Akira Helmsdal Carre/norden.org
Í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina er lögð áhersla á þörfina á auknu norrænu samstarfi á sviði samgöngumála og innviða. Í skýrslunni er fjallað um tækifæri og úrlausnarefni þegar kemur að því að samþætta og nútímavæða samgönguinnviði á svæðinu.

Skýrslan var kynnt á þemaþingi Norðurlandaráðs í Þórshöfn í Færeyjum en það var Gunnar Lindberg frá Nordic Mobility R&I AB sem skrifaði hana. Hann segir framtíðarsýnina um að gera Norðurlönd að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir 2030 að miklu leyti háða róttækum umbótum á sviði samgöngumála. Í því felst að leggja þurfi áherslu á grænan hagvöxt og nýsköpun á nokkrum stefnumarkandi áherslusviðum: grænum Norðuröndum, samkeppnishæfum Norðurlöndum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.

Lindberg bendir á að þótt norrænu löndin eigi í traustu samstarfi á mörgum sviðum vanti miðlægt stjórnfyrirkomulag. Til þess að ná nauðsynlegri samþættingu er meðal annars lagt til að efla árlega norræna fundi gatna- og vegamálayfirvalda, að koma á árlegum norrænum fundi eftirlitsstofnana og samþætta norræna kunnáttu í ESB-samstarfinu.

Þátttakendur í pallborðsumræðum voru allir, að undanskildum sænska ráðherranum, á einu máli um að formlegt samstarf sé nauðsynlegt til þess að við komumst skrefi nær því að eignast gott og sameiginlegt norrænt samgöngunet sem gagnast atvinnulífinu.

Liv Kari Eskeland, norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin hefur í mörg ár kallað eftir nánara og formfastara norrænu samstarfi um samgönginnviði. Liv Kari Eskeland frá flokkahópi hægrimanna tók þátt í umræðum í kjölfar kynningar á skýrslunni sem að hennar mati undirstrikar það sem norrænir þingmenn hafa lengi kallað eftir.

„Þátttakendur í pallborðsumræðum voru allir, að undanskildum sænska ráðherranum, á einu máli um að formlegt samstarf sé nauðsynlegt til þess að við komumst skrefi nær því að eignast gott og sameiginlegt norrænt samgöngunet sem gagnast atvinnulífinu“, segir Eskeland.

Tilmæli fulltrúa atvinnulífsins til norrænu ríkisstjórnanna voru einnig skýr. Erik Østergaard, formaður Nordic Logistics Association, sagði:

„Samgöngur eru þess eðlis að þær teygja sig yfir landamæri. Lög og reglugerðir á þessu sviði eru að mestu leyti frá ESB komnar og að okkar mati er mikilvægt að samræma norræn sjónarmið í stað þess að löndin fari hvert í sínu lagi til ESB. Það er betra að vera með samræmdar aðgerðir og það er hægt að gera með formlegu samstarfi.“

Öryggismál í brennidepli

Eitt af því sem einkum er lögð áhersla á í skýrslunni er þörfin á að samræma skipulagningu innviða þvert á landamæri, ekki síst í ljósi nýrrar geópólitískrar stöðu nú þegar öll norrænu löndin eru orðin aðilar að NATO. Lögð er til röð „greininga á norrænum leiðum“ til þess að finna og betrumbæta innviðaverkefni sem teygja sig yfir landamæri og skipta sköpum til að efla jafnt efnahagslega samþættingu sem öryggi landanna.

Louise Dedichen, aðstoðaraðmíráll, undirstrikaði þetta jafnframt, en hún er fulltrúi Noregs í hernaðarnefnd NATO. Hún lagði áherslu á að innganga Svíþjóðar og Finnlands í NATO breyti stöðunni í varnarmálum á Norðurlöndum. Noregur er ekki lengur útvörður NATO heldur land sem flytja verður herafla um í austur ef upp koma átök. Það kallar á samræmingu samgönguinnviða.

 

„Þetta er mikilvægt því við erum ekki mjög fjölmenn á Norðurlöndum en ef við snúum bökum saman erum við sterk. Allar umræður sem við höfum átt hafa sýnt að samstaða er mikið og við þurfum að tengja löndin vel saman og þar skipta innviðir sköpum,“ segir Liv Kari Eskeland.

Nýr vegvísir

Nýsköpun leikur stórt hlutverk í tillögum skýrslunnar. Hún ýtir undir norrænt samstarf í tengslum við rannsóknir og tækniframfarir, einkum á sviði grænna samgangna. Bent er á verkefni sem til dæmis tengjast rafvæðingu flugsamgangna og sjálfvirkum samgöngukerfum sem lykilatriði í því að draga úr kolefnisspori svæðisins.

 

Einnig er lagt til að mótuð verði samræmdari norræn samgöngustefna sem getur eflt rödd svæðisins á alþjóðavettvangi, einkum innan ESB. Með hliðsjón af Brexit hefur þörfin á því að Norðurlönd standi saman aukist enn.

Ég vil næstum því ganga svo langt að segja að það ætti að vera EITT samgönguráðuneyti fyrir öll fimm norrænu löndin. Slík stofnun ætti að standa að skipulagningu samgönguæða.

Thomas Becker, framkvæmdastjóri STRING

Thomas Becker, framkvæmdastjóri STRING, bar upp róttæka hugmynd við umræðurnar.

„Það er kolrangt af okkur að lestarsamgöngur og aðrir innviðir séu ekki samræmdir á milli landanna. Ég vil næstum því ganga svo langt að segja að það ætti að vera EITT samgönguráðuneyti fyrir öll fimm norrænu löndin. Slík stofnun ætti að standa að skipulagningu samgönguæða. Það er það sem þarf,“ segir Becker.

Fyrir Norðurlönd er þessi skýrsla ekki aðeins vegvísir fyrir samgönguverkefni framtíðarinnar heldur einnig viðbrögð við breyttri geópólitískri stöðu og loftslagsvánni. Með tillögum að aðgerðum sem tengjast öllu frá staðbundnum endurbótum á inniviðum til alþjóðastjórnmála er teiknuð upp framtíð þar sem samgöngur og hreyfanleiki á Norðurlöndum er ekki aðeins sjálfbær heldur einnig undirstaða stöðugleika og hagvaxtar á svæðinu.