Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason
Photographer
Christopher Lund
Andri Snær Magnason: Tímakistan. Mál og menning 2013

Tímakistan fjallar um kunnuglega en þó framandi framtíð þegar mannkynið bíður betri tíma í svörtum kössum sem eru þeirrar náttúru að á meðan fólk er ofan í þeim stendur tíminn í stað. En ástand heimsins fer hríðversnandi á meðan, uns nokkur börn fara af stað og heyra hjá gamalli konu ævintýri um konung sem vildi sigrast á tímanum og eignaðist fyrstu tímakistuna til að vernda dóttur sína fyrir tímanum  Allt fer á versta veg hjá þessum konungi og eins þegar fólkið í samtíma sögunnar ákveður að fela sig í svörtum kassa og bíða þess að aðrir bjargi heiminum.

Í Tímakistunni fléttast saman nútíð, framtíð og fortíð að ógleymdum ævintýraheimi sem allir kannast við en enginn hefur búið í. Það er í þessari mögnuðu fléttu staðreynda, sannleika, galdra og furðu sem Andri Snær Magnason spyr áleitinna spurninga um lifnaðarhætti og gildi hins vestræna nútímasamfélags og ábyrgð hvers einstaklings á ástandi heimsins. Í sögunni er glímt við tímahugtakið og snúið upp á gömul ævintýraminni af ástríðufullri hugmyndaauðgi. Andri Snær er einhver atkvæðamesti rithöfundur Íslendinga seinustu ár, hvass samfélagsrýnir sem iðulega fléttar saman skýrum boðskap og húmor. Hann hefur oft sagt ráðamönnum og stórfyrirtækjum til syndanna í verkum sínum og er Tímakistan þar engin undantekning.