Handhafi kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023

Den danska filmen ”Viften” fick Nordiska rådets filmpris 2023

Den danska filmen ”Viften” fick Nordiska rådets filmpris 2023

Photographer
Magnus Fröderberg, norden.org
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023 hlýtur danska kvikmyndin Empire eftir leikstjórann Frederikke Aspöck, handritshöfundinn Anna Neye og framleiðendurna Pernille Munk Skydsgaard, Nina Leidersdorff og Meta Louise Foldager Sørensen.

Rökstuðningur dómnefndar

Það er sjaldgæft að sjá kvikmynd sem er úthugsuð af jafnmiklu sjálfsöryggi og í öllum smæstu smáatriðum. Frederikke Aspöck leikstjóri stígur hvergi feilspor. Empire veitir nýja og ferska sýn á kynþáttahyggju og valdatafl. Þungamiðja sögunnar er nýlendutímabil Danmerkur og sögusviðið Vestur-Indíar árið 1848, á eynni St. Croix.

 

Það ber vitni um kjark, áræðni og metnað af hálfu kvikmyndagerðarkvennanna að segja þessa alvarlegu og sársaukafullu sögu á svo persónulegan og gáskafullan hátt, jafnvel kíminn og furðu fallegan á köflum. Höfundarnir skoða liðna tíð og það er ekki fögur sjón. Í Empire segir frá afmörkuðum hluta úr danskri sögu, en jafnframt ættu áhorfendur hvaðanæva úr heiminum að eiga auðvelt með að tengja frásögnina við vandamál úr samtímanum. 

 

Hér er á ferð sannfærandi og einkar margslungin túlkun á þrælauppreisn gegn dönskum nýlenduherrum. Persónurnar reyna að finna sér stað innan stigveldis kynþátta og stétta. Brigðular ráðagerðir og hverfult trygglyndi gera söguna ófyrirsjáanlega og grípandi. Handritshöfundurinn Anna Neye, sem leikur einnig aðalhlutverkið, hefur skapað margþætta sögu sem ekki hefur heyrst fyrr, sögu þar sem allar persónurnar hafa einhverja galla og margar þeirra eiga í innri siðferðisbaráttu.

 

Dómnefndin valdi Empire úr hópi norrænna kvikmynda af miklum gæðum. Í myndinni koma saman stórgott handrit, áberandi góð sjónræn frásögn og hljóðheimur sem skilar sér í magnaðri kvikmyndaupplifun. Á heildina litið hafa höfundarnir fært áhorfendum fagran, sætan og litríkan glaðning sem einnig geymir biturt eitur og stillta bræði. 

 

Við óskum framleiðendunum til hamingju með að hafa gert þessum sterku og frumlegu röddum kleift að heyrast í norrænum kvikmyndahúsum.