Ingvild Bjerkeland

Ljósmyndari
Grethe Nyggard
Ingvild Bjerkeland: Udyr. Spennusaga, Cappelen Damm, 2023. Tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs 2024.

Rökstuðningur

Hinn þrettán ára gamli Abdi og fimm ára systir hans, Alva, eru á flótta. Einhverjar dularfullar skepnur hafa skyndilega birst og farið að hundelta fólk. Þau komu líka heim til Abdi og Ölvu, sem varð til þess að þau urðu að flýja. Skrímslin hafa drepið mömmu þeirra, pabbi þeirra er í vinnuferð á lítilli eyju í Norðursjó. Abdi og Alva þurfa því að spjara sig sjálf og hefja erfitt ferðalag þar sem lífsbaráttan er grimm og miskunnarlaus. 

 

Udyr („Ófreskjur“, hefur ekki verið þýdd á íslensku) er skáldsaga um það þegar heimurinn verður fyrir skyndilegri innrás skepna sem kölluð eru ófreskjur. Enginn veit hvaðan ófreskjurnar komu og óvissan eykur enn á óhugnaðinn. Að heiminum steðjar hætta sem enginn hefur skýringar á. Það eina sem fólk veit með vissu er að það þarf að flýja ófreskjurnar til að halda lífi.  

Frásögnin er stutt og þétt, textinn knappur og atburðarásin er hlaðin undirliggjandi ólgu.  

Höfundurinn sýnir okkur líka að það eru ekki aðeins ófreskjurnar sem þarf að óttast. Í söguheimi bókarinnar geta ekki einu sinni tvö börn á flótta treyst á að annað fólk vilji því vel. 

Tungumálið drífur frásögnina áfram á hátt sem minnir á kvikmynd. Hverjum kafla lýkur með gríðarlegri spennu sem verður til þess að halda þarf lestrinum áfram.

 

Auk þess að vera hreinræktuð spennusaga má einnig lesa frásögnina sem táknsögu.  

Ófreskjurnar eru ósigrandi afl sem sölsar heiminn undir sig, eina borg í einu, og Abdi og Alva eru tvö varnarlaus börn á flótta í heimi sem er skyndilega gersneyddur allri merkingu.  

Þetta leiðir hugann að mörgum þeirra stríða sem geisa víða um heim og sú túlkun verður enn sterkari í ljósi síðustu myndarinnar sem dregin er upp í bókinni, þar sem börnin tvö eru í troðfullum gúmmíbát á leið til móts við óviss örlög. 

Udyr sýnir okkur skelfinguna, fátið og valdaleysið sem má ímynda sér að fólk á flótta upplifi, og það hversu erfitt er að treysta fólki – líka því sem vill manni raunverulega vel.  

Þetta er líka hlý ástarsaga um bróður sem gerir allt í sínu valdi til að tryggja öryggi systur sinnar þó að heimurinn sé að liðast í sundur í kringum þau. 

Höfundurinn 

Ingvild Bjerkeland (fædd 1981 i Haugesund) hefur áður gefið út þrjár bækur fyrir börn og ungmenni. Hún hefur numið ritlist í Bø í Noregi og er með doktorsgráðu í kvikmynda- og sjónvarpsfræðum. 

Udyr hlaut barnabókaverðlaun norsku bókaverslunarinnar ARK árið 2023.