Motståndaren – Svíþjóð

Motståndaren
Photographer
Sebastian Wintero
Kvikmyndin „Motståndaren“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Þegar tilveru íranska glímumannsins Imans er umturnað flýr hann til Svíþjóðar með fjölskyldu sína. Þrátt fyrir óöryggið í flóttamannabústaðnum tekst foreldrunum að skapa dætrum sínum tryggt umhverfi, en hefur þeim tekist að flýja ógnina sem steðjaði að í heimalandinu? Ógnvekjandi leyndarmál ólgar undir yfirborðinu og hefur möguleika á að sundra fjölskyldunni – og þvinga Iman til að horfast í augu við fortíð sína.

Rökstuðningur

Sterk, flókin og þétt kvikmynd. Glóir með lágstemmdum bjarma en er jafnframt alelda. Frásögn Milads Alami er marglaga, hægfara og breytir um stefnu á leiðinni – án þess að Alami missi sjónar á takmarki sínu sem leikstjóri. Hann segir frá Svíþjóð, frá hlykkjóttri flóttaleið og forboðnum tilfinningum, án þess að gera viðfangsefnið auðvelt – hvorki sjálfum sér né áhorfendum. Í samstarfi við leikarann Payman Maadi og með næmri myndatöku Sebastians Winterø fangar Alami einnig af nákvæmni skilin á milli hinna líkamlegu átaka glímuíþróttarinnar og þeirra snertinga sem þrungnar eru einhverju allt öðru. Hann fellir okkur kylliflöt.

Handritshöfundur og leikstjóri – Milad Alami

Milad Alami fæddist árið 1982 í Rasht í Íran. Hann útskrifaðist árið 2011 frá Kvikmyndaskóla Danmerkur og hefur starfað óslitið innan kvikmyndageirans síðan, bæði í Svíþjóð og Danmörku. Stuttmyndir hans Mini og Void voru báðar tilnefndar til hinna dönsku Robert-verðlauna árið 2015. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Charmøren, var heimsfrumsýnd í San Sebastián og hlaut fjölda verðlauna. Eftir það leikstýrði hann tveimur þáttum af hinum vinsælu dönsku þáttum Bedrag og var hugmyndastjóri dönsku þáttanna Når støvet har lagt sig. Önnur mynd hans í fullri lengd, Motståndaren, sem tekin var upp á farsí og sænsku, var heimsfrumsýnd í Panorama-flokki á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2023. Væntanleg sjónvarpsþáttaröð sem Alami skrifar og leikstýrir, Bullshit, verður frumsýnd á Viaplay síðar á þessu ári.

Framleiðandi – Annika Rogell

Annika Rogell (f. 1981) starfar sem framleiðandi hjá Art & Bob Film & Drama í Stokkhólmi.
Rogell stundaði nám við Dramatiska Institutet í Stokkhólmi. Árið 2009 hóf hún störf hjá heimildamyndafyrirtækinu Story AB, þar sem hún framleiddi verðlaunamyndirnar The Black Power Mixtape 1967–1975 og Om våld eftir Göran Hugo Olsson. Einnig hefur hún unnið með öðrum virtum framleiðslufyrirtækjum á borð við Memfis Film, Garagefilm International og Filmlance.

Fyrir Tangy, sitt eigið framleiðslufyrirtæki sem stofnað var 2013, framleiddi hún fyrstu myndina sem Sanna Lenken leikstýrði í fullri lengd, Min lilla syster, sem hlaut Kristalsbjörninn í flokknum Generation Kplus á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2015 og sópaði til sín fjölda alþjóðlegra verðlauna. Vísindaskáldskaparmyndin Aniara, sem Pella Kagerman og Hugo Lilja leikstýrðu, vakti einnig mikla athygli strax við frumsýningu og hlaut fern Guldbagge-verðlaun í Danmörku 2020, meðal annars fyrir bestu leikstjórn. Motståndaren eftir Milad Alami var heimsfrumsýnd í Panorama-flokknum á kvikmyndahátíðinni í Berlín 2023. Hún var valin besta myndin á Persian Int’l Film Festival og hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Seattle. Rogell var útnefnd upprennandi framleiðandi Svíþjóðar („Producer on the Move“) í Cannes árið 2015.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Motståndaren

Alþjóðlegur titill: Opponent

Leikstjóri: Milad Alami

Handritshöfundur: Milad Alami

Framleiðandi: Annika Rogell

Framleiðslufyrirtæki: Tangy

Lengd: 119 mínútur

Dreifing í Svíþjóð: TriArt

Alþjóðleg dreifing: Indie Sales