Samablóð – Svíþjóð

Billede fra "Sameblod" (Sverige) - Cecilia Sparrok
Photographer
Sophia Olsson
Sænska kvikmyndin „Samablóð“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Elle Marja er 14 ára Samastúlka og hreindýrahirðir. Eftir að hafa kynnst kynþáttafordómum samfélagsins á fjórða áratug 20. aldar og kynþáttarannsóknum í heimavistarskólanum þar sem hún stundar nám, fer hún að láta sig dreyma um annars konar líf. En til að geta lifað því lífi þarf hún að verða einhver önnur en hún er og slíta öll tengsl við fjölskyldu sína og menningu.

Rökstuðningur dómnefndar

Hér er á ferð hugrökk frásögn sem opnar á samræður um bældan og gleymdan kafla í sögu Svíþjóðar og sem á jafnframt brýnt erindi við samtímann með umfjöllun sinni um uppruna og félags- og menningarlegan hreyfanleika. 

Amanda Kernell sýnir hér vald sitt á handverki kvikmyndalistarinnar og mikinn næmleika hvað varðar persónusköpun og smæstu smáatriði. Ásamt myndatökumanninum Sophiu Olsson tekst henni að fanga bæði stórbrotið landslag og innsta kjarna aðalpersónunnar; smæð manneskjunnar í hinu stærra samhengi.

Leikstjóri / handritshöfundur – Amanda Kernell

Amanda Kernell (f. 1986) lauk námi í kvikmyndaleikstjórn frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2013. Frá árinu 2006 hefur hún leikstýrt fjölda stuttmynda sem hlotið hafa lof, þ.á.m. Stoerre Vaerie (Norra Storfjället) (2015), sem var frumsýnd á Sundance-hátíðinni og hlaut fjölda verðlauna, m.a. áhorfendaverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2015 og verðlaun fyrir bestu stuttmynd á kvikmyndahátíðinni í Uppsölum.

Samablóð er fyrsta mynd Kernell í fullri lengd. Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 2016 þar sem hún vann Europa Cinemas Label fyrir bestu evrópsku mynd og Feodora-verðlaun fyrir bestu frumraun í fullri lengd. Í kjölfarið var hún sýnd á yfir 20 alþjóðlegum hátíðum og hlaut fjölda annarra viðurkenninga, svo sem sérstök dómnefndarverðlaun og verðlaun fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki (Lene Cecilia Sparrok) í Tókýó, og Dragon-verðlaunin 2017 fyrir bestu norrænu kvikmyndina og verðlaun Sven Nykvist fyrir bestu myndatöku (Sophia Olsson) í Gautaborg.

Samhliða því að vinna að Samablóði hefur Amanda Kernell leikstýrt myndinni I Will Always Love You Kingen. Næsta mynd hennar í fullri lengd er samtímadramað Charter. 
Kernell hefur verið nefnd á meðal tíu áhugaverðustu kvenkyns leikstjóra í dag af Europe! Voices of Women in Film.

Framleiðandi – Lars G. Lindström

Lars G. Lindström (f. 1955) hefur starfað sem framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Nordisk Film í Svíþjóð síðan 2013. Hann á að baki langan og fjölbreyttan feril í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi. Áður hefur hann framleitt fyrir Nordisk Film Babylonsjukan (2004), fyrstu mynd leikstjórans Daniel Espinosa, og Den man älskar(2007) eftir Åke Sandgren. Samablóð eftir Amöndu Kernell var valin til sýninga á yfir 20 alþjóðlegar kvikmyndahátíðir og var sýningarrétturinn seldur til yfir 150 landa.

Á meðal væntanlegra mynda Lindströms eru ævisögulega myndin Unga Astrid í leikstjórn Pernille Fischer Christensen, og Charter, næsta mynd Kernell í fullri lengd.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Samablóð 

Leikstjóri og handritshöfundur: Amanda Kernell

Aðahlutverk: Lene Cecilie Sparrok, Mia Sparrok, Maj-Doris Rimpi

Framleiðandi: Lars G. Lindström

Framleiðslufyrirtæki: Nordisk Film Production

Lengd: 110 mínútur

Dreifing í Svíþjóð: Nordisk Film Distribution

Alþjóðleg dreifing: LevelK