Yahya Hassan
Rökstuðningur:
Þegar Yahya Hassan gaf út sína fyrstu bók árið 2013, ljóðabókina YAHYA HASSAN, vakti það athygli langt út yfir landamæri Danmerkur. Hinn ungi „ríkisfangslausi Palestínumaður með danska vegabréfið“ (þannig kynnti höfundurinn sig á bókarkápu) hóf upp sína áleitnu og ofsafengnu ljóðaraust á viðkvæmum stað sem sjaldan heyrist frá: hann lýsti uppvexti á jaðri samfélagsins þar sem ofbeldið í öllum sínum birtingarmyndum – hið kerfisbundna, hið tilviljanakennda, hið persónulega – er daglegt brauð. Með þessari fyrstu bók sýndi Yahya Hassan framúrskarandi vald sitt á hinum ýmsu framsetningarmátum ritaðs máls og þeim röddum sem hæfa hverju sinni. Einnig varð ljóst að hann hefur orðið – ljóðrænuna – á valdi sínu, þrátt fyrir það valdaleysi sem annars ríkir í samfélagskimum fjarri hinum ríkjandi stéttum og hugmyndum þeirra um hvað hið góða líf sé og hvernig það eigi að vera.
Sex árum síðar fylgdi Yahya Hassan frumrauninni eftir með bókinni YAHYA HASSAN 2, sem staðfestir svo um munar að Yahya Hassan er einstaklega sterk rödd í norrænni samtímaljóðlist. Sem fyrr eru ljóðin sjálfsævisöguleg, beinskeytt og vægðarlaus – bæði í garð lesanda og ljóðmælanda. Og enn er gegnumgangandi hinn sérstæði taktur sem minnir á munnlegan flutning, sem lá einnig til grundvallar ljóðunum í fyrri bók skáldsins. Það verður einfaldlega knýjandi nauðsyn að lesa ljóðin upphátt: „ERT ÞÚ LJÓÐSKÁLD, SPYR ÓBREYTT LÖGGA / ÞÚ ERT GLÆPAMAÐUR, SEGIR ÓBREYTT LÖGGA“. Orðaleikirnir minna á hipphopp-texta: „UMHVERFI MITT ER EKKI VÍGBÚIÐ / HELDUR VÍGÓLMT“. Málinu er beitt á frábærlega myndrænan hátt: „KOMDU ÞÉR ÞÁ ÚR VEGINUM / OG EKKI HLAUPA ÚT Á AKRANA / SEM ER VERIÐ AÐ SKERA UPP Í AUGNABLIKINU“. Og mitt í öllu þessu vígólma ástandi getur ólgandi, áköf kímni skyndilega sprottið fram að lesandanum: „ENGINN ÞEKKIR MIG BETUR / EN LÖGREGLUUMDÆMIÐ MITT“. Sjónarhorn þessarar bókar er víðara en í frumrauninni. Ofbeldi á heimaslóðum er sett í hnattrænt samhengi. Skýr tengsl eru dregin upp á milli svæðisbundinnar mismununar og kynþáttafordóma og raunverulegra landfræðipólitískra aðstæðna. Skyndilega virðist ekki svo langt milli Árósa og Gaza. YAHYA HASSAN 2 er engin venjuleg bók og sýnir heldur enga viðleitni til að strjúka lesendum sínum rétt. Hér er á ferð brennandi vitnisburður. Þetta er rödd sem vill heyrast. Og einmitt af því að hún talar tungumál ljóðlistarinnar mun hún líka hljóta áheyrn.
Yahya Hassan lést 29. apríl 2020 24 ára að aldri. Hann var ánægður með að hafa verið tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og þau geta enn fallið honum í skaut þegar tilkynnt verður um vinningshafann í október 2020.