Kreeta-Maria Kentala

Kreeta-Maria Kentala
Photographer
Ulla Nikula
Kreeta-Maria Kentala er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Fiðluleikarinn Kreeta-Maria Kentala er frumkvöðull á sviði eldri finnskrar tónlistar. Hún er á heimavelli sem einleikari, stjórnandi og kennari hvort sem um ræðir barokktónlist, sígilda tónlist, rómantíska tónlist, nýja tónlist eða þjóðlagatónlist.

Í tjáningu hennar fer djúp þekking á ólíkum tónlistargreinum saman við ferskt sjónarhorn og hugaðan spuna. Gott dæmi um getu Kentala til að sameina óvænta hluti á skapandi hátt er verðlaunuð sólóplata hennar, Side by Side – Bach partitas and folk music from Kaustinen (2016), þar sem barokk og þjóðlagatónlist renna smátt og smátt saman í eitt.

Kentala er komin af þjóðlagatónlistarfólki. Hún ólst upp í Kaustinen, nam við Akademíu Síbelíusar í Helsinki, hélt þaðan til framhaldsnáms við Konunglega Edsberg-tónlistarskólann í Stokkhólmi og nam loks barokktónlist í Köln. Á meðal hópa sem hún leikur með eru Barocco Boreale og The Jones Band. Á ferli sínum hefur Kentala meðal annars leikið með hópnum Musica Antiqua Köln og í sinfóníuhljómsveit finnska útvarpsins, verið listrænn stjórnandi tónlistarhátíða og getið sér gott orð fyrir tónlistarkennslu.