Sara Lundberg

Sara Lundberg
Photographer
Ola Kjelbye
Sara Lundberg: Glömdagen. Myndabók, Mirando Bok, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur

Með Glömdagen („Gleymidagurinn“, ekki gefin út á íslensku) sýnir Sara Lundberg enn á ný meistaraleg tök á því að draga fram og undirstrika sjónarhorn barnsins. Í Glömdagen birtist þetta strax á bókarkápunni þar sem foreldri beygir sig niður að barni til að mæta því þar sem það er. Augu barnsins hvíla á foreldrinu og augu foreldrisins á barninu.

 

Sara Lundberg hefur skrifað hlýja frásögn sem lesendur kannast eflaust við eitt og annað í. Sagan segir frá degi þar sem ekkert verður eins og persónurnar héldu, eða eins og þær vildu. Þetta er dagur sem átti að gleymast en sem enginn mun þó gleyma svo glatt.

 

Síðurnar í bók Lundberg eru litskrúðug listaverk sem breiða úr sér og taka pláss. Þær sýna hversdaginn á hátt sem lesandinn finnur alveg niður í maga. Fólkið og kringumstæðurnar eru kunnugleg en öðlast lit og hreyfingu og verða að einhverju alveg nýju þegar Lundberg mundar pensilinn.

 

Jafnvel eftir að hinar upphaflegu aðalpersónur eru sofnaðar býður Lundberg upp á svarthvítt, skissulegt og stórbrotið framhald sem minnir á eftirspil eða kontrapunkt í tónlist. Hin nýja aðalpersóna er nú ennisspöng sem hefur gleymst að taka með, en er þó allt annað en gleymd. Úr verður leikur og furðusaga með vísunum í önnur þekkt verk.

 

Sara Lundberg (f. 1971) hefur meðal annars stundað nám við Konstfack og Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi og hefur markað sér sess sem margverðlaunaður myndskreytir og rithöfundur. Meðal annars hefur hún hlotið August-verðlaunin tvisvar, síðast árið 2017 fyrir bókina Fågeln i mig flyger vart den vill („Fuglinn í mér flýgur þangað sem hann vill“, ekki gefin út á íslensku) sem hlaut einnig Snöbollen-verðlaunin fyrir bestu sænsku myndabók ársins 2017.

 

Glömdagen er fyrsta bókin eftir Fågeln i mig flyger vart den vill sem bæði er skrifuð og myndskreytt af Söru Lundberg.