Aukið samstarf Norðurlandanna og Kína

29.05.17 | Fréttir
Erna Solberg
Photographer
Magnus Frderberg/norden.org
Samstarf norrænu landanna og Kína var á meðal viðfangsefna á óformlegum fundi norrænu forsætisráðherranna, sem fram fór í Noregi í dag. Forsætisráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Stefan Löfven, Juha Sipilä, Lars Løkke Rasmussen og Erna Solberg eru sammála um að leggja aukna áherslu á sértækt norrænt samstarf við Kína. Fundahöld vara í tvo daga og lýkur á morgun með kynningu á verkefninu Nordic Solutions to Global Challenges.
Í hinum ótrygga heimi sem við búum í er norrænt samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við Norðurlandabúar deilum sömu gildum og traustið á milli okkar er einstakt.

Á árinu 2017 gegnir Noregur formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, boðaði kollega sína til fundar í Björgvin 29. og 30. maí.

„Kínverjar hafa sýnt áhuga á samstarfi við Norðurlöndin og við erum sammála um að halda áfram að ræða aukið samstarf við Kína,“ segir Erna Solberg.

Auk samstarfs við Kína ræddu forsætisráðherrarnir meðal annars framþróun Norðurlanda sem samþættasta svæðis í heimi og baráttuna gegn öfgastefnu. Fundurinn fór fram í Björgvin, heimabæ Ernu Solberg.

Norðurlönd og SÞ, umskipti til loftslagsvænna lausna og stafræn tækni komu einnig til tals. 

„Í hinum ótrygga heimi sem við búum í er norrænt samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Við Norðurlandabúar deilum sömu gildum og traustið á milli okkar er einstakt,“ segir Erna Solberg.

Framtaksverkefni forsætisráðherranna kynnt 

Á morgun liggur leiðin í Hafrannsóknastofnunina í Austevoll í Noregi, þar sem forsætisráðherrarnir fá kynningu á stofnuninni og sjálfbærri stjórnun á auðlindum hafsins. Því næst verður framtaksverkefni forsætisráðherranna, Nordic Solutions to Global Challenges, kynnt.

Verkefnið er mikilvægur þáttur í framlagi Norðurlanda til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.