Henrik Dam Kristensen kjörinn forseti Norðurlandaráðs 2016

29.10.15 | Fréttir
Nyvald president och vice-president
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Ásamt Mikkel Dencker, varaforseta, mun Henrik Dam Kristensen leiða starf Norðurlandaráðs á árinu 2016 þegar Danmörk tekur við formennsku í þingmannasamstarfi Norðurlandanna.

Í þakkarræðu sinni á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík talaði Henrik Dam Kristensen um ástandið í varnar- og öryggismálum á grannsvæðum Norðurlanda.

„Lönd okkar eru þekkt fyrir stöðugleika, enn sem fyrr. En þróunin undanfarið ár, einkum sem viðkemur aðgerðum Rússlands í Úkraínu og við landamæri Norðurlanda, hefur í för með sér ný viðfangsefni fyrir norrænt utanríkis- og varnarmálasamstarf. Samstarfið er að verða nauðsynleg viðbót við NATÓ. Og það er ekki í andstöðu við NATÓ,“ sagði hinn nýkjörni forseti.

Henrik Dam Kristensen hélt áfram:

„Nú gefst sögulegt tækifæri til þess að þétta þetta samstarf. Við höfum engu að tapa og allt að vinna með nánara Norðurlandasamstarfi í varnar- og öryggismálum. Það myndi auka virðingarstöðu Norðurlandanna.“

Danska formennskan hyggst halda stóra ráðstefnu til að kynna sjónarmið sín varðandi norrænt varnarmálasamstarf á árinu 2016 og halda áfram starfinu að hinum fjölmörgu viðfangsefnum á norðurslóðum.

Á formennskuári Dana vill Norðurlandaráð einnig beina sjónum að aðgerðum á sviði heilbrigðismála, en þar standa öll Norðurlöndin frammi fyrir miklum áskorunum, m.a. hvað varðar aukin lyfjaútgjöld. 

„Við viljum láta kortleggja reynslu Norðurlandanna af innkaupum á lyfjum og löggjöf varðandi þau. Ég veit til þess að verkefni standa nú þegar yfir á þessu sviði, og við hyggjumst fylgja þeim eftir,“ sagði Dam Kristensen.

Ennfremur vill formennska Dana beita sér fyrir því að þróa samstarfið í ferðaþjónustu, innan Norðurlandanna sem utan.