Framkvæmdastjóri efnahagsnefndar SÞ: „Norðurlöndin verða að gera meira til að leysa flóttamannavandann“

28.10.15 | Fréttir
Christian Friis Bach
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Í ræðu sinni á þingi Norðurlandaráðs hvatti Christian Friis Bach, framkvæmdastjóri efnahagsnefndar SÞ, Norðurlöndin til að taka afstöðu með réttindum flóttafólks, gegn kynþáttahyggju og hatri, og til að styðja yfirgripsmeiri nálgun á meðhöndlun og lausnir í málefnum flóttafólks.

„Það mun ekki veikja lönd ykkar að standa með réttindum flóttafólks. Það mun efla þau. Við getum ekki og megum ekki láta flóttamannavandann sundra samstöðu alþjóðasamfélagsins. Við verðum að taka ótvíræða afstöðu gegn kynþáttahyggju og hatri. Þetta eru þau lykilskilaboð sem ég flyt ykkur frá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna,“ sagði framkvæmdastjóri efnahagsnefndar SÞ, Christian Friis Bach, í ávarpi sínu til norrænna ráðherra og þingmanna í Reykjavík.

Mr. Friis Bach lagði einnig áherslu á mikilvægi öflugs alþjóðlegs samstarfs og samhæfingar, einkum í svæðisbundnu samhengi.

„Sýnið mannúð og standið vörð um mannréttindi“

„Í sjötíu ára sögu Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlöndin verið einna öflugust í að tala fyrir mannréttindum. Með því hafið þið áunnið ykkur mikla virðingu um allan heim. Ég hvet ykkur eindregið til að kasta ekki hinni sögulegu sérstöðu ykkar á glæ vegna vanda sem þið getið vel ráðið við, ef þið aðeins vinnið saman. Þess í stað hvet ég ykkur til að sýna mannúð og standa vörð um mannréttindi alls flóttafólks, sama hver staða þess kann að vera.

Við getum ekki og megum ekki láta flóttamannavandann sundra samstöðu alþjóðasamfélagsins. Við verðum að taka ótvíræða afstöðu gegn kynþáttahyggju og hatri.

Þörf á sterkri norrænni rödd

Framkvæmdastjóri efnahagsnefndar SÞ lagði áherslu á að sterk norræn rödd yrði að heyrast.

„Norðurlöndin gætu stutt yfirgripsmeiri nálgun á meðhöndlun og lausnir í málefnum flóttafólks, sem byggðu á sterku alþjóðlegu samstarfi og samhæfingu, einkum í svæðisbundnu samhengi. Ekkert land er fært um það eitt síns liðs að takast á við þau úrlausnarefni og tækifæri sem fólksflutningar í hnattvæddum heimi hafa í för með sér.

Sameinuðu þjóðirnar trúa á þá hugsjón að leggja allt undir til að bjarga mannslífum, og Friis Bach hvatti samkomuna til þess að tryggja verndun flóttafólks, mannréttindi þeirra og réttindi flóttamanna til að sækja um pólitískt hæli.

„Við megum ekki gera upp á milli þess fólks sem kemur hingað, sem flóttamenn eða af öðrum ástæðum; við verðum að sýna þeim öllum virðingu. Við verðum að sameina krafta okkar til að að uppræta ófyrirleitin glæpasamtök mansals og smyglara. Og síðast en ekki síst verðum við að efla samstarf milli upprunalanda þessa fólks, landanna sem það fer í gegnum og áfangastaða þeirra, og einsetja okkur að deila ábyrgðinni jafnt,“ sagði Christian Friis Bach, framkvæmdastjóri efnahagsnefndar SÞ, að lokum.

Myndskeið og viðtal

Christian Friis Bach um flóttamannavandann á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík: