Verðlaun Norðurlandaráðs á dagskrá í skólum

29.10.15 | Fréttir
Valgerður Gunnarsdóttir
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norðurlandaráð vill stuðla að aukinni þekkingu barna og ungmenna á norrænni menningu. Norrænir stjórnmálamenn leggja til að ríkisstjórnirnar bjóði grunn- og menntaskólanemum upp á dagskrána „Norræna menningarskólataskan“, þar sem þau geti kynnt sér tilnefningar til verðlauna Norðurlandaráðs hverju sinni.

„Það er mikilvægt að styrkja tengsl milli Norðurlandanna, einkum unga fólksins, með aukinni meðvitund um menningu hinna landanna. Þetta mun stuðla að aukinni vináttu, skilningi og áhuga á umhverfi, tungumáli og menningu hvers lands og nánari tengslum milli landanna,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, fulltrúi í menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs, þegar hún lagði fram tillöguna.

Menningar- og menntamálanefndin vill efla norrænt samstarf á sviði skóla og menningarlífs. Því leggur nefndin til að verkefnið „Lyftistöng fyrir norrænar barna- og unglingabókmenntir“ verði þróað áfram svo að nemendurnir öðlist einnig aukna þekkingu á norrænum kvikmyndum, tónlist, bókmenntum ætluðum fullorðnum og umhverfisverkefnum, og jafnframt aukinn skilning á norrænum tungumálum.

Það er mikilvægt að styrkja tengsl milli Norðurlandanna, einkum unga fólksins, með aukinni meðvitund um menningu hinna landanna. Þetta mun stuðla að aukinni vináttu, skilningi og áhuga á umhverfi, tungumáli og menningu hvers lands og nánari tengslum milli landanna.

 

 

Stjórnmálamennirnir vilja að á hverju ári verði tekin saman fagleg og menningarleg dagskrá sem boðin verði börnum og unglingum í grunnskólum og framhaldsskólum á Norðurlöndum, og að hún taki til allra fimm verðlauna Norðurlandaráðs en ekki aðeins barna- og unglingabókmenntaverðlaunanna eins og nú er. Áætlunin yrði unnin í samstarfi norrænu menningar- og menntamálaráðherranna.

Tillagan var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík og nú er boltinn hjá ríkisstjórnum Norðurlandanna.