Norðurlandaráð vill styðja við og efla blaðamennsku á Norðurlöndum

29.10.15 | Fréttir
Mogens Jensen
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Tjáningarfrelsið er grundvöllur virks lýðræðis og því biður Norðurlandaráð ríkisstjórnir Norðurlanda nú um að styðja við og efla blaðamennsku í löndunum.

Norðurlandaráð leggur til að ríkisstjórnir Norðurlandanna viðhaldi starfsemi Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar (NJC) og veiti verkefnum miðstöðvarinnar aukinn forgang, í því augnamiði að styðja við blaðamennsku á Norðurlöndum. Menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs leggur ennfremur til að ráðstefna verði haldin um stöðu frjálsrar fjölmiðlunar á Norðurlöndum í samstarfi við blaðamannamiðstöðina.

„Norræna blaðamannamiðstöðin gegnir lykilhlutverki þegar kemur að því að efla fjölmiðlaumfjöllun um norræn málefni á öllum Norðurlöndum. Miðstöðin endurmenntar blaðamenn frá öllum Norðurlöndunum og stuðlar þar með að auknum skilningi á þróuninni í löndunum og á norrænu samstarfi, m.a. í Norðurlandaráði og Norræna ráðherranefndinni. Einkum er það mikils virði að blaðamennirnir myndi í kjölfarið norræn tengslanet, sem gefa þeim aukna möguleika á að fylgjast með og fjalla um þróunina í löndunum,“ segir Mogens Jensen, fulltrúi í menningar- og menntamálanefnd Norðurlandaráðs.

Miðstöðin endurmenntar blaðamenn frá öllum Norðurlöndunum og stuðlar þar með að auknum skilningi á þróuninni í löndunum og á norrænu samstarfi, m.a. í Norðurlandaráði og Norræna ráðherranefndinni

Stjórnmálamennirnir vilja einnig að gripið verði til aðgerða til að efla frjálsa fjölmiðla á Norðurlöndum, einkum á strjálbýlum svæðum s.s. Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, og á svæðum þar sem blaðamennska á erfiðara uppdráttar sökum tækniþróunar og veiklaðs hagkerfis með tilheyrandi niðurskurði og gjaldþrotum.

Tillagan var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.