Nei við samnorrænu kennitölukerfi, já við sameiginlegum rafrænum skilríkjum

25.01.17 | Fréttir
Nummermaskine på bibliotek
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Á fundi Norðurlandaráðs í Ósló felldi norræna velferðarnefndin tillögu um sameiginlegt norrænt kennitölukerfi. Meginástæðan er sú að til er einfaldari og ódýrari lausn við stjórnsýsluhindrunum: sameiginleg rafræn skilríki. Slík skilríki myndu ljúka upp dyrum sem hafa hingað til verið lokaðar almenningi þegar komið er yfir landamæri.

Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum í öðrum löndum og tiltölulega einfalt er að aðlaga þau svo að þau gildi alls staðar á Norðurlöndum, sé pólitískur vilji til staðar.

Norrænir borgarar eru hreyfanlegir. Við stundum nám og vinnu þvert á landamæri, oft í öðrum löndum en við búum í. Þetta skapar oftar en ekki vandamál tengd skrifræði, sem valda borgurunum skapraun. Til að fá vinnu, opna bankareikning eða skrá heimilisfang verður að hafa kennitölu í því landi sem flutt er til. 

Að mati flokkahóps miðjumanna er tímabært að norrænt samstarf hætti að vera óformlegt og ruglingslegt ástarsamband og verði þess í stað að „formföstum hjúskap“. Flokkahópurinn lagði tillögu sína um formfastan hjúskap – eða nánar til tekið „borgararéttindi á Norðurlöndum“ – fram á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík árið 2015. Norræna velferðarnefndin sendi löndunum tillöguna til umsagnar í janúar 2016.

Lesið þingmannatillöguna hér:

Já við sameiginlegum norrænum skilríkjum

Í dag ákvað nefndin að styðja ekki tillöguna um sameiginlegt kennitölukerfi. Meginástæðan er sú að til eru einfaldari og ódýrari lausnir við stjórnsýsluhindrunum: sameiginleg rafræn skilríki, og bætt kerfi til að miðla grunnupplýsingum um borgara landanna (t.d. upplýsingum úr þjóðskrá). 

Rafræn skilríki eru nú þegar í notkun í löndunum, en sem dæmi má nefna auðkennislykla bankanna og ýmis lykilorð og kóða sem veita aðgang að opinberri þjónustu. Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum í öðrum löndum og tiltölulega einfalt er að aðlaga þau svo að þau gildi alls staðar á Norðurlöndum, sé pólitískur vilji til staðar.

Nefndin fundar næst í Stokkhólmi í apríl, þar sem málið verður rætt frekar áður en endurskoðuð tillaga verður til umfjöllunar á þingfundi með öllum þingmönnum Norðurlandaráðs. Að afgreiðslu þingfundar lokinni verður tilmælum um málið beint til norrænu ríkisstjórnanna.