Setja þarf aukinn kraft í baráttu gegn mansali á Norðurlöndum

28.10.15 | Fréttir
Carl Haglund
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Eitt stærsta ólöglega hagkerfi í heimi byggir á því að gera manneskjur að söluvöru. Flokkahópur miðjumanna í Norðurlandaráði vill uppræta slíka glæpastarfsemi og hefur því lagt fram tillögu um að setja aukinn kraft í baráttuna gegn mansali í norrænu samstarfi.

„Norðurlönd ættu að vera í fylkingarbrjósti í alþjóðasamstarfi gegn mansali. Alltof fáir dómar falla í mansalsmálum. Áhættan er því lítil fyrir höfuðpaurana, en gróðavonin mikil. Þetta er óásættanlegt. Áhættan á að vera meiri og gróðavonin minni,“ segir formaður flokkahóps miðjumanna, Carl Haglund.

Samkvæmt samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali er mansal skilgreint á þessa leið: að taka í þjónustu sína, flytja, afhenda, hýsa eða taka við einstaklingum, með því að hóta valdbeitingu eða beita valdi eða með annars konar nauðung, brottnámi, svikum, blekkingum, misnotkun valds eða varnarleysis viðkomandi eða með því að afhenda eða taka við greiðslu eða ágóða í því augnamiði að fá fram samþykki einstaklings, sem hefur vald yfir öðrum einstaklingi, til að koma fram misneytingu.

Alltof fáir dómar falla í mansalsmálum. Áhættan er því lítil fyrir höfuðpaurana, en gróðavonin mikil. Þetta er óásættanlegt. Áhættan á að vera meiri og gróðavonin minni.

Norðurlöndin eiga aðild að alþjóðlegum samningum sem skuldbinda þau til að hjálpa fórnarlömbum mansals og veita þeim aðstoð. Þetta eru m.a. samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali (2005) og samningur Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulegri glæpastarfsemi (2000), auk viðbótarbókana um mansal.

Samstarf gerir baráttuna árangursríkari

„Við búum í hnattvæddum heimi og glæpastarfsemi verður sífellt fjölþjóðlegri. Því þarf að berjast gegn mansali með því að bæta samstarfið milli Norðurlandanna og með víðtæku alþjóðlegu samstarfi, meðal annars gegnum alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir, og milli ríkisstofnana og félagasamtaka,“ segir Carl Haglund fyrir hönd flokkahóps miðjumanna.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram leggur flokkahópur miðjumanna til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um

  • að hún efli starf gegn mansali þar sem lögð er áhersla á norræna samvinnu og aðgerðir yfir landamæri;
  • að hún efli enn frekar alþjóðlegt samstarf um aðgerðir gegn mansali;
  • að hún beiti sér fyrir því að lögregla, ábyrg yfirvöld, tollayfirvöld, starfsfólk öldrunarþjónustu, starfsfólk móttökubúða hælisleitenda, heilbrigðisstarfsfólk og kennarar hinna ýmsu starfsmannahópa sem málið varðar öðlist hæfni til þess að bera kennsl á fórnarlömb mansals;
  • að með því að skiptast á þekkingu og reynslu verði stuðlað að því að fórnarlömb mansals fái góða meðferð;
  • að hún hvetji öll aðildarlöndin eins og unnt er til þess að endurskoða gildandi löggjöf með það fyrir augum að herða refsingar fyrir mansal.